Von er á yfirlýsingu frá tónlistarmanninum Auði vegna ásakana sem komið hafa fram um kynferðislegt ofbeldi af hans hálfu í garð ungra stúlkna.
Þetta herma áreiðanlegar heimildir mbl.is.
Hávær umræða hefur átt sér stað á samfélagsmiðlinum Twitter undanfarna daga um meint brot tónlistarmannsins.
Greint var frá því á vef DV í dag að Þjóðleikhúsið hefði ásakanir á hendur Auði til skoðunar og að fundað hefði verið vegna þeirra, ásamt Auði, innan veggja hússins. mbl.is náði ekki í samskiptastjóra leikhússins vegna málsins.
Auður kemur að uppsetningu leikhússins á Rómeó og Júlíu en hann var einnig fenginn til að búa til hljóðheim sýningarinnar.
Auður hefur átt góðu gengi að fagna undanfarin ár og telst til vinsælli tónlistarmanna landsins.
Á vef Fréttablaðsins er vikið að því að fylgjendum Auðs hafi fækkað um ríflega þúsund á aðeins nokkrum dögum. Er fækkunin talin stafa af þeim ásökunum sem fram hafa komið.