Um 60 lyklum að búningsklefum hefur verið stolið úr Grafarvogslaug á aðeins þremur vikum. Tjón laugarinnar er rúmlega hálf milljón króna og er nú svo komið að laugin getur ekki endurnýjað lyklana innan skamms tíma. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins.
„Það eru einhverjir sniðugir að gera okkur grikk og það er mjög erfitt að fylgjast með þessu,“ segir Hrafn Jörgensson forstöðumaður í samtali við Fréttablaðið. Hefur það komið fyrir í öðrum laugum að lyklaþjófnaður færist tímabundið í vöxt en Hrafn segir að slíkt hafi ekki áður gerst í Grafarvoginum.
Faraldurinn er bundinn við karlaklefann þar sem eru 110 klefar og hefur því rúmlega helmingi lyklanna verið stolið. Hver lykill og skrá kosta 9 þúsund krónur og samanlagður kostnaður er því um 540 þúsund krónur. Laugin er ekki tryggð fyrir tjóninu og þarf því að taka það af rekstrarfénu.