Fimm ár fyrir sérlega grófa og niðurlægjandi árás

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sakfellt karlmann fyrir nauðgun og brot í nánu sambandi á heimili sínu á Akureyri í september 2020. Var maðurinn dæmdur til að sæta fimm ára fangelsi og til að greiða fjórar milljónir í miskabætur. 

Dómurinn féll 28. maí en var fyrst birtur í gær. 

„Árás sú sem ákærði er nú sakfelldur fyrir stóð lengi yfir. Brotaþoli hlaut umtalsverða áverka. Þá er hún illa haldin af áfallastreitu og ótta. Brot hans samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var sérlega gróft og niðurlægjandi og ber að virða það til refsiþyngingar,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Missti meðvitund

Héraðssaksóknari ákærði manninn í janúar sl. fyrir að hafa á „alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað heilsu og velferð fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður sinnar,“ eins og það er orðað í ákæru. Hann þvingaði hana m.a. ítrekað til samræðis, beitti hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Hann þrengdi m.a. að öndunarvegi hennar svo hún missti meðvitund og hætti ekki að beita konuna ofbeldi þrátt fyrir að hún grátbæði hann um það. 

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og sagði að þau hefðu stundað „gróft kynlíf þennan dag með samþykki brotaþola“. 

Var undir stjórn mannsins

Í dómnum kemur fram, að meðferðaraðilar, m.a. sálfræðingur, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur, að konan væri mjög undir stjórn mannsins. Hún hafi verið 18 ára þegar hún byrjaði í sambandi með honum, en hann var þá 27 ára gamall. Konan er greind á mörkum tornæmis, með einkenni einhverfu og blandaða kvíðaröskun. 

Sálfræðingur, sem hefur haft konuna til meðferðar um árabil, lýsti langri sögu ofbeldissambands þar sem maðurinn hafi algjöra stjórn á konunni og beiti hana ýmiss konar ofbeldi. Sálfræðingurinn og geðlæknir lýstu því að hún hafi viljað komast úr sambandinu en ekki getað það. Maðurinn nái alltaf til hennar aftur og hún geti ekki sett honum mörk. 

Áður hlotið dóm fyrir brot gegn konunni

Þá liggur fyrir að maðurinn var í júní 2019 dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir margítrekuð brot gegn konunni frá hausti 2015 til júlí 2018. Hún hóf þrátt fyrir þ að samband með honum að nýju. 

Fram kemur í dómnum, að með vísan til framburðar konunnar, mikilla líkamlegra áverka hennar, andlegs ástands hennar við komu á neyðarmóttöku og staðfestingar meðferðaraðila á mjög versnandi andlegu ástandi hennar í kjölfar þessara atvika, er það álit dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi þvingað konuna til að þola það ofbeldi sem lýst er í ákæru. 

Tekið er fram að sakaferill mannsins hafi ekki áhrif að öðru leyti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert