Krambúðin og Kjörbúðin hefja sölu á lausasölulyfjum  

Samkaup hefur hafið sölu á lausasölulyfjum í þremur verslunum félagsins.
Samkaup hefur hafið sölu á lausasölulyfjum í þremur verslunum félagsins. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samkaup hefur hafið sölu á lausasölulyfjum í þremur verslunum félagsins. Verslanirnar sem um ræðir eru Krambúðin á Flúðum og Laugarvatni, og Kjörbúðin á Fáskrúðsfirði.  

„Lausasölulyfin eru nýjasta viðbótin í vöruúrvali verslana á þessum svæðum og kærkomin viðbót fyrir íbúa, sumarbústaðaeigendur og ferðamenn enda engin apótek í þessum þéttbýliskjörnum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, í fréttatilkynningu frá Samkaupum.

Lausasölulyfin sem boðið verður upp á eru meðal annars Panodil-stílar, Panodil hot, Panodil-freyðitöflur, Íbúfen, Paratabs, Lórítin, míxtúra, Histasín og Nicotinell. Sala á lyfjunum er háð undanþágu frá kröfu um lyfsöluleyfi til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun.

„Sala á lausasölulyfjum í þessum þremur verslunum er fyrsta skrefið í að veita viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu. Það er í skoðun hjá okkur að opna fyrir sölu á lausasölulyfjum í öðrum verslunum enda teljum við það samfélagslega skyldu okkar að bjóða viðskiptavinum upp á sem fjölbreyttasta vöruúrvalið, ekki síst á þeim stöðum þar sem önnur þjónusta er af skornum skammti,“ segir Gunnar Egill.  

Samkaup reka yfir 60 verslanir um land allt undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar, Iceland og Samkaupa.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert