Maðurinn sem lögreglan lýsti eftir í gær er fundinn. Verður hann framseldur til Póllands.
Sebastian Kolowski kom í leitirnar í morgun. Hann á rúm sex ár eftir óafplánuð í Póllandi fyrir stórfellda líkamsárás sem dró fórnarlamb hans til dauða árið 2017.
Sebastian kvaðst hafa komið til Íslands til að hefja nýtt líf en ekki flýja.
Þann 15. apríl var Sebastian handtekinn hér á landi vegna gruns um að hann hafi brotist inn í hús og frelsissvipt annan einstakling. Fyrir lá handtökuskipun á hendur honum frá Póllandi.
Pólsk yfirvöld höfðu óskað eftir því að Sebastian yrði afhentur aftur til Póllands á grundvelli evrópskar handtökuskipunar. Ríkissaksóknari vildi verða við þessari beiðni og þá höfðaði Sebastian mál gegn saksóknara til að fá ákvörðunina fellda úr gildi. Málið fór fyrir Landsrétt sem staðfesti ákvörðun ríkissaksóknara.
Sebastian hafði í málinu farið fram á að fá að vera viðstaddur meðferð málsins sem varðaði innbrotið og frelsissviptinguna hér á landi, því gæti hann ekki farið aftur til Póllands fyrr en málinu yrði lokið. Landsréttur benti á að ekki væri að finna neitt í lögum sem veittu honum þann rétt og því yrði ekki fallist á þá kröfu. Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar.
Í kjölfarið var lagt ferðabann á Sebastian, sem fól í sér að hann ætti að tilkynna sig á lögreglustöð reglulega. Það gerði hann ekki í gær og því lýsti lögregla eftir honum. Nú þegar hann hefur verið fundinn verður hann næst framseldur til Póllands til að afplána dóminn sem hann á yfir sér þar.