Hellisheiði var lokað í báðar áttir í gær frá klukkan níu og fram undir kvöld. Verið var að malbika 980 metra langan kafla neðst í Kömbunum ofan Hveragerðis. Á meðan var umferðinni beint um Þrengslin, í átt til Þorlákshafnar.
Upphaflega stóð til að malbika vegkaflann á mánudag. Veður setti þó strik í reikninginn og fresta þurfti framkvæmdunum um einn dag.
Hafsteinn Elíasson, verkefnastjóri hjá Colas, sagði í gær að allt hefði gengið vel og verkefnið klárast um fjögurleytið, vel á undan áætlun, því upphaflega hafði verið stefnt að því að klára það um kvöldmatarleytið.
Hafsteinn sagði að nú væri nokkur gróska í malbikunarframkvæmdum enda hefði veðrið verið gott að undanförnu. „Um leið og þornar fer allt á fullt,“ sagði Hafsteinn.