Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir að þeir sem fullnusta refsingu utan fangelsa teljist ekki vera í virkri atvinnuleit og geti því ekki fengið bætur greiddar úr atvinnuleysistryggingasjóði.
Ásmundur segir að hafin sé heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar. Mun hann vekja athygli á málefnum fanga við nefndina sem vinnur að endurskoðuninni svo sjónarmið þau sem Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar benti á í viðtali við mbl.is, verði höfð til hliðsjónar.
Þeir sem missa vinnuna meðan þeir eru inni á Vernd fá ekki atvinnuleysisbætur þótt þeir borgi í atvinnuleysistryggingasjóð meðan þeir eru í starfi.
Þráinn lýsti því hvernig einstaklingur á Vernd, sem vann í 16 mánuði og missti svo vinnuna í tvo mánuði, gat ekki sótt um atvinnuleysisbætur. Bætur eru ekki greiddar einstaklingum sem enn eru fangar í skilningi laganna. Lögin eru svo túlkuð þannig, af Vinnumálastofnun, að allir sem fullnusta dóma samkvæmt skilningi laganna teljist frelsissviptir og þar með fangar.
Þær reglur sem um ræðir kveða á um að menn geti „geymt“ réttindi sín meðan þeir eru frelsissviptir, en fái þau ekki greidd út fyrr en afplánun refsingar lýkur. Í þessum sömu lögum er að finna skilgreiningu á því hverjir teljist frelsissviptir og er þar ljóst að menn sem taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu eru þar lagðir að jöfnu þeim sem taka hana út í fangelsi.
Ásmundur benti á að lögin hefðu það markmið að tryggja að vinnusaga manna fyrnist ekki meðan á refsitíma stendur og geti því haft ívilnandi áhrif enda verður Vinnumálastofnun samkvæmt þeim að líta til síðustu 12 mánaða áður en viðkomandi hóf afplánun, þegar bætur eru ákvarðaðar að afplánun lokinni.
Ef viðkomandi starfar á innlendum vinnumarkaði eftir að honum hefur verið gert að taka út refsingu, líkt og þeir sem afplána refsingu á áfangaheimilum samhliða því að vera í fullu starfi, þá kemur sú vinnusaga til viðbótar við fyrri vinnusögu. Eykur hún því rétt til atvinnuleysistrygginga verði viðkomandi atvinnulaus, að afplánun lokinni.
Vinnumálastofnun segir að hið almenna skilyrði um að þeir sem sæki um atvinnuleysisbætur þurfi að vera í virkri atvinnuleit, sé það sem skipti mestu máli í sambandi við stöðu fanga gagnvart lögunum. Þeir sem afpláni refsingu í fangelsum, sæta gæsluvarðhaldi eða taki út refsingu með samfélagsþjónustu séu ekki í virkri atvinnuleit og fái því ekki greiddar út atvinnuleysisbætur.
Hins vegar geti þeir sem hafa fengið reynslulausn eða afplána refsingu með svokallað ökklaband átt rétt á atvinnuleysistryggingum, enda uppfylli þeir skilyrði laganna um virka atvinnuleit. Hér er ekki ljóst undir hvað áfangaheimili, líkt og Vernd, fellur.
Ásmundur bendir á að það sé almennt skilyrði að menn séu í vinnu eða námi meðan þeir fullnusta refsingu utan fangelsis. Sé það staðan, uppfylli þeir ekki almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga um virka atvinnuleit.