„Það ræður ekkert bráðasjúkrahús við svona“

Alvarlegt ástand er á bráðamóttökunni.
Alvarlegt ástand er á bráðamóttökunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það getur ekkert sjúkrahús búið við svona ástand í áraraðir,“ segir Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu á Landspítalanum í samtali við mbl.is varðandi stöðuna á bráðamóttöku Landspítalans.

Framkvæmdastjórn Landspítala hefur fundað síðustu daga vegna stöðunnar og segir Runólfur að fundirnir snúast helst um viðbragð til þess að mæta manneklu á bráðamóttökunni þá sérstaklega á meðal lækna. 

Þetta verður gert með að fá starfskraft lækna frá öðrum sérgreinum til aðstoðar. „Það getur hins vegar reynst flókið þar sem þessir læknar eru með aðra þjónustu á sínum snærum auk þess sem fólk er búið að skipuleggja sumarleyfi.“ Bæði lækn­ar með langa starfs­reynslu og ný­lega út­skrifaðir bráðalækn­ar hafa yf­ir­gefið bráðamót­tök­una und­an­far­in ár.

Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu.
Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu. Ljósmynd/Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir

Kallar á skipulagsbreytingar

„Við höfum verið að vinna í því að reyna að koma með einhver úrræði sem duga til þess a tryggja öryggi sjúklinga og veita starfsliðinu á bráðamóttökunni stuðning,“ segir Runólfur og bætir við að þessi úrræði kalli á skipulagsbreytingar víða, meðal annars í sérgreinum á spítalanum, og aðra forgangsröðun en hefur verið.

Runólfur segir að nú þegar séu sérgreinar með starfsemi á bráðamóttökunni en það þurfi að auka hana verulega, það sé verið að vinna að því. „Ég held að það sé nú að smella hjá okkur en það breytir því ekki að það er viðvarandi þarna. Það virðist einhvern veginn aldrei vera tekið almennilega á rót vandans.“

Met fjöldi þeirra sem bíða eftir öðrum úrræðum

Runólfur segir rót vandans meðal annars vera að ákveðin hluti legurýma eru teppt af einstaklingum sem eru að bíða eftir öðru úrræði. Mikil fjölgun hafi verið síðustu áratugi meðal aldraðra og nú sé met í fjölda einstaklinga sem bíði á spítalanum eftir öðru úrræði, eða um 120 manns þar af 90 sem bíða eftir langtímavistun á hjúkrunarheimili.

„Þetta eru um 15% af legurýmum spítalans. Það ræður ekkert bráðasjúkrahús við svona. Það er heldur ekki boðlegt fyrir aldraða einstaklinga að vera vistaðir inn á bráðasjúkrahúsi mánuðum saman. Skapa þurfi viðeigandi þjónustu- og vistunarúrræði fyrir færniskerta aldraða einstaklinga og það kostar mikla fjármuni,“ segir Runólfur og bætir við að það þurfi að skipuleggja almennilega þjónustu sem dugi.

Álag á starfsfólki hefur verið gríðarmikið.
Álag á starfsfólki hefur verið gríðarmikið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem þetta gerir er að vinnuaðstæðurnar á bráðamóttökunni verða algjörlega óviðunnandi. Ef sjúklingarnir komast ekki þaðan og ílengjast þar á göngum þá verða aðstæður til þess að sinna þeim ófullnægjandi,“ segir Runólfur og bætir við að á sama tíma koma inn nýir sjúklingar og því er erfitt að halda utan um allan þennan fjölda. „Þá eykst hætta á að miður geti farið.“

Ákveðið andrými með opnun nýs hjúkrunarheimilis

„Það er óhjákvæmilegt ef við ætlum að reyna tryggja bráðastarfsemi í sessi til framtíðar þá verður að grípa inn í þessa þróun,“ segir Runólfur. Hann bætir við að spítalinn hafi fengið ákveðið hlé í fyrra eftir fyrstu bylgjuna af Covid-19 þegar hjúkrunarheimili opnaði á Sléttuvegi. „Þá fluttust allir einstaklingarnir, sem voru fjölmargir þá í biðstöðu, á heimilið. Þá urðu aðstæður tímabundið mun betri á bráðamóttökunni.“ Runólfur segir að síðan þá hefur stefnt í sama farið.

„Við höfum verið að reyna að auka starfssemi annarra deilda sem eru að taka við sjúklingum af bráðamóttökunni. Núna útaf þessu neyðarástandi þá erum við að auka það mjög mikið til að tryggja öryggi sjúklinga.“

Óboðlegar vinnuaðstæður

Mannekla hefur verið vaxandi á bráðamóttökunni að undanförnu og segir Runólfur það meðal annars koma til vegna óviðunandi starfsaðstæðna. „Í heilbrigðisþjónustu almennt á Vesturlöndum hefur verið að skapast mannekla vegna þess að þörfin fyrir þjónustu er alltaf að aukast,“ segir Runólfur og bætir við að því sé mikilvægt að forgangsraða starfsfólki vel þar sem þörfin er mest.

„Við getum hins vegar ekki þvingað fólk til þess að vinna við aðstæður sem það telur vera óboðlegar.“ Hann segir að ekki endilega sé um færri lækna og hjúkrunarfræðinga hér á landi en annars staðar heldur stafi manneklan á bráðamóttökunni af vinnuaðstæðunum þar.

En nú hefur landlæknir undanfarið tvö og hálft ár sent heilbrigðisráðherra fimm minnisblöð og úttektir um þá alvarlegu stöðu og staðan enn svo slæm.

Runólfur segir að margar úttektir og skýrslur hafa verið gerðar um ástandið á bráðamóttökunni. „Það hefur verið gagnlegt að því leyti til að þættir hafa komið í ljós í skipulagi og verkferlum innan sem hægt er að bæta til þess að auka flæði. Það er hins vegar bara dropi í hafinu þegar þú stendur frammi fyrir svona vanda.“

„Í árslok 2019 var uppi afleit staða og þá var ráðist í úttekt og átakshópur skipaður, meðal annars voru sænskir ráðgjafar fengnir til. Gagnlegar ábendingar um leiðir til úrbóta innan spítalans komu fram og stóðu vonir til þess að staðan myndi lagast og flæði á sjúklingum yrði betra. Ég held hins vegar að það hafi verið óraunhæfar væntingar að þessi úrræði myndu leysa málið,“ segir Runólfur og bætir við að stöðugt sé unnið sé að úrbótum, einnig á meðan faraldrinum stóð. „Það kemur hins vegar á daginn að það dugar bara að litlu leyti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert