Von á nýrri sérleyfisleið upp að eldgosi

Hluti gjaldsins sem nú þarf að borga til að leggja …
Hluti gjaldsins sem nú þarf að borga til að leggja bíl á bílastæðinu við eldgosið í Geldingadölum mun fara í uppbyggingu á svæðinu. Kristinn Magnússon

Hluti bílastæðagjaldsins sem innheimt er á bílastæðinu við eldgosið í Geldingadölum mun fara í uppbyggingu á svæðinu, segir Sigurður Guðjón Gíslason, formaður Landeigendafélags Hrauns.

Uppbyggingin felst helst í því að betrumbæta aðgengi að svæðinu, meðal annars með því að útbúa betra bílastæði, klósettaðstöðu og nýja sérleyfisleið upp á fjallið, að sögn Sigurðar.

„Þannig að það sé hægt að ferja þá sem eiga erfitt með gang upp á fjallið, bæði eldra fólk og fatlaða einstaklinga,“ segir hann. 

Uppbyggingu ætlað að létta álagi á svæðinu

Uppbyggingunni er þannig ætlað að létta álaginu á svæðinu og minnka líkurnar á því að fólk slasi sig þar.

„Þróun á hraunflæði síðustu vikur hefur þó valdið því að ekki hefur verið hægt að fara eins hratt í þær framkvæmdir eins og landeigendur vildu. Svo eru þeir auðvitað háðir skipulagsvaldinu, bæði Grindavíkurbæ sem handhafa skipulagsvaldsins og framkvæmdavaldsins og svo auðvitað Umhverfisstofnunar. Þannig að það eru aðalskipulagsbreytingar í gangi núna og í framhaldinu deiluskipulagsbreytingar en við vitum bara ekki hvað við fáum að fara fljótt af stað í hlutina,” segir hann.

Björgunarsveitirnar hafa staðið vaktina í Geldingadölum frá því að gosið …
Björgunarsveitirnar hafa staðið vaktina í Geldingadölum frá því að gosið hófst. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Aðspurður hvort til standi að láta hluta gjaldsins renna til björgunarsveitanna, sem staðið hafa í ströngu við gæslu á svæðinu síðan gosið hófst, segir Sigurður svo ekki vera.

„Það var pæling á tímabili, að vera með einhverja valfrjálsa greiðslu til viðbótar handa björgunarsveitunum, en sveitunum er náttúrulega að einhverju leyti haldið út af ríkinu. Það hefur alveg verið rætt en björgunarsveitirnar fá nú þegar greitt fyrir að vera á svæðinu. Að öðru leiti er þetta náttúrulega bara mikill kostnaður sem við erum í. Við erum að deila þessum greiðslum með öðrum landareiganda sem á hluta af landinu sem er undir bílastæðunum svo það er bara hluti sem rennur til okkar sem erum í uppbyggingunni.“ 

Eftirlit ekki enn hafið

Ekki er enn farið að fylgjast sérstaklega með því hvort fólk sé að borga gjaldið eða ekki, segir Sigurður þegar blaðamaður innti eftir því.

„Það er ekki byrjað ennþá. Við vildum setja þetta inn og vera með smá aðlögunartíma. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að fara í rafrænt eftirlit ennþá.”

Gjaldið er innheimt í gegnum fyrirtækjaþjónustu Parka og segir Sigurður Landeigendafélagið treysta á reynslu þeirra í þessum efnum.

„Það er ekki búið að gera neinar eftirlitsmælingar á því hvað hlutfall þeirra sem borga gjaldið er hátt en þeir hjá Parka hafa reynslu af innheimtu af þessu tagi úti á landi og þar hefur 80-85% fólks verið að borga án þess að það sé eitthvað vesen. Ég hugsa að við séum ekkert langt frá því hlutfalli,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert