Alls hafa 18 einstaklingar undir 18 ára aldri óskað eftir undanþágu frá hjúskaparlögum frá árinu 1998. Engin undanþága hefur verið veitt frá árinu 2016.
Aðeins einn drengur hefur óskað eftir undanþágu, árið 2007 þegar umræddur drengur var 17 ára og hjónaefni hans 18 ára. Flestar þeirra 17 stúlkna sem sótt hafa um undanþágu hafa verið 17 ára gamlar, en í tveimur tilvikum voru þær 16 ára. Aldur hjónaefnis hefur oftast verið í kringum 25 ár, en í tveimur tilvikum árin 2004 og 2005 hefur hjónaefni 17 ára stúlku verið 31 árs.
Í skilgreiningu Evrópuráðsins á barnahjónabandi felst að annar aðilinn, eða þeir báðir, séu undir 18 ára aldri. Allar þjóðir Norðurlandanna hafa með lögum bannað barnahjónaband utan Íslands og Noregs.
Samkvæmt upplýsingum sem dómsmálaráðuneytið sendi allsherjar- og menntamálanefnd vegna frumvarps Andrés Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, þar sem lagt er til að heimild til undanþágu verði afnumin, voru tvær undanþágur frá aldursskilyrði hjúskaparlaga veittar árið 1998, 1999 og 2000. Þrjár undanþágur voru veittar árið 2008, en önnur ár var aðeins ein undanþága veitt ef nokkur.
Fréttablaðið greindi fyrst frá.