Rakaskemmdir og mygla í húsum verða aðalfundarefni málþings sem fer fram í Háskóla Reykjavíkur frá kl. 13-17 í dag. Streymt verður beint frá málþinginu hér að neðan.
Meðal annars verður farið yfir forvarnir við rakaskemmdum, tíðni mygluvandamála og hvort ný íslensk hús séu hönnuð til að standast veðurfar og rakavandamál.
Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins og Nýsköpunarmiðstöð halda málþingið, í samvinnu við samtökin Betri byggingar.
Málþingið er haldið til heiðurs Dr. Birni Marteinssyni frá rannsóknarstofu byggingariðnaðarins við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fyrrum dósent við Háskóla Íslands. Flutt verða sjö stutt ávörp til heiðurs Björns og umræður haldnar um framtíðaráskoranir byggingarrannsókna.
Björn mun opna málþingið ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, iðnaðarráðherra. Erindi hans ber yfirskriftina „Tíðni rakaskemmda og hollustuvandamál“. Þar mun Björn fara yfir niðurstöður þriggja kannanna um tíðni rakavandamála frá árunum 1980, 1992 og 2005 og gera grein fyrir áður óbirtum niðurstöðum nýrrar könnunar um rakavandamál í húsum og líðan íbúa þeim húsum.
Dr. Ólafur H. Wallevik, forstöðumaður rannsóknarstofu byggingariðnaðarins og prófessor við Háskólann í Reykjavík mun stýra fundinum en hann mun einnig flytja erindið „Hvað er mikilvægast varðandi rakaskemmdir?“
Þá mun Dr. Kjartan Guðmundsson frá KTH, konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi flytja erindið „Getum við fylgst með rakaskemmdum í síma?“
Dr. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir frá Náttúrustofnun Íslands fer yfir hvaða sveppur er hættulegastur og Dr. Ævar Harðarson, arkitekt hjá Reykjavíkurborg mun flytja erindið „Geta ný hús staðið úti?“
Málþingið er opið öllum og aðgangur ókeypis á meðan húsrúm leyfir.