Íslendingar eru talsvert líklegri en Norðmenn til þess að rekast á falsfréttir á hinum ýmsu miðlum. Tæpur þriðjungur segist hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga. Þetta kemur fram í nýrri spurningakönnun fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu.
Rétt tæp 70% svarenda segjast hafa rekist á falsfréttir eða fengið þær sendar með öðrum hætti á síðustu mánuðum, hlutfallið er hærra hjá körlum en konum. Íslenska hlutfallið er töluvert hærra en í sambærilegri könnun á Norðmönnum þar sem 44% sögðust hafa rekist á falsfréttir.
Alls segjast 87% þátttakenda sig frekar eða mjög líklega til þess að efast um sannleiksgildi upplýsinga á vefnum. Í þessum flokki skera yngsti og elsti aldurshópurinn sig út en rúm 30% svarenda á aldursbilinu 15-17 segja engar eða litlar líkur á því að þau efist um sannleiksgildi upplýsinga á netinu. Hjá 60 ára og eldri var fimmtungur þeirrar skoðunar.
Könnunin er annar hluti skýrslu fjölmiðlanefndar um miðlalæsi á Íslandi.