Viking Park Iceland er í viðræðum við ferðaþjónustuaðila um gjaldtöku inn á Mýrdalssand, nánar tiltekið leiðirnar upp að Hafursey og Kötlujökli. Sömu eigendur standa að baki Viking Park Iceland ehf og leigutaka Hjörleifshöfðajarðarinnar, Mýrdalssandur ehf. Félagið Power Minerals Iceland keypti jörðina fyrir hundruð milljóna króna á síðasta ári. Þremur ríkisstjórnum var boðið að kaupa hana, síðast ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Framkvæmdarstjóri Viking Park Iceland er Jóhann Vignir Hróbjartsson en hann er líka forstjóri Lavaconcept sem hefur unnið að gangsetningu sandnáma í Vík. Hann staðfestir í samtali við mbl.is að engar áætlanir séu uppi um greiðsluskyldu einstaklinga, einungis fyrirtækja.
Jóhann segir að með gjaldtökunni sé ætlunin að takmarka umferð á svæðinu og stöðva utanvegaakstur. Aðspurður um einstaklinga sem keyra utanvegar sagði hann fjölda skilta hafa verið komið fyrir til þess að sporna við slíkri hegðun, ef það gangi þó ekki gæti félagið þurft að grípa til aðgerða sem hefta aðgengi að svæðinu. Jóhann vonar þó innilega að svo verði ekki.
Jóhann vildi ekki tjá sig um þær upphæðir sem ferðaþjónustufyrirtæki þyrftu að reiða fram til að ferma túrista á svæðið en sagði viðtökurnar hafa verið góðar og að mörg félög séu áhugasöm.
Áætlað er að gjaldtakan hefjist 1. júlí en Jóhann segir undirbúningsvinnu hafa staðið lengi og að allt verði gert í samræmi við gildandi lög og reglur.