Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frekari aðgerðir vegna stöðunnar á bráðamóttöku Landspítala af hálfu heilbrigðisráðuneytisins. Þetta kemur fram í skriflegu svari upplýsingafulltrúa ráðuneytisins til mbl.is.
Líkt og hefur verið fjallað um undanfarna daga í fjölmiðlum hefur neyðarástandi verið lýst yfir á bráðamóttökunni. Framkvæmdastjórn Landspítala hefur fundað síðustu daga vegna stöðunnar og hafa fundirnir helst snúist um viðbragð til þess að mæta manneklu á bráðamóttökunni, þá sérstaklega á meðal lækna.
Félag bráðalækna sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í síðustu viku vegna stöðunnar og segir þar að allri ábyrgð ef komi til alvarlegra atvika á deildinni, sem rekja megi til manneklu, sé vísað á forstjóra Landspítala, heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og Alþingi.
Í svari heilbrigðisráðuneytisins til mbl.is kemur fram að í febrúar 2020 skilaði átakshópur tillögum til að leysa úr vanda bráðamóttökunnar. Hluti þeirra tillaga sneri að aðgerðum sem ráðuneytið myndi hrinda í framkvæmd og hluti þeirra að aðgerðum sem spítalinn er ábyrgur fyrir.
Í minnisblaði landlæknis frá 7. maí segir að þessar tillögur eru flestar þess eðlis að árangur náist ekki innan skamms.
Í svari ráðuneytisins við minnisblaðinu er bent á að nú þegar sé unnið að mismunandi leiðum til lausnar á vandanum. Í svari ráðuneytisins segir: „Áhersla hefur verið lögð á að auka framboð og fjölbreytileika þjónustu við aldraða á síðustu misserum með það að markmiði að færa þunga þjónustunnar framar í þjónustukeðjuna og freista þess þannig að minnka þörf fyrir þjónustu á hærra þjónustustigi eins og þjónustu bráðamóttaka og sjúkrahúsa.“
Þar megi nefna nokkur dæmi um aukna og nýja þjónustu sem sérstaklega miðar að því að tryggja öldruðum einstaklingum þjónustu á viðeigandi þjónustustigi:
Ráðuneytið nefnir nokkur verkefni í viðbót og þá sérstaklega byggingu hjúkrunarrýma síðustu ár. Hvergi er þó minnst á í svörum ráðuneytisins um tillögur fyrir beinlínis auknu fjármagni til þess að svara manneklu deildarinnar.
Heilbrigðisráðuneytið hefur einnig komið á fót landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sem tók til starfa í vikunni. Ráðinu er ætlað að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á breiðum grundvelli um þessi mál.
Gert er ráð fyrir að landsráð skili heilbrigðisráðherra ár hvert tillögum að áætlun um aðgerðir í þágu mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu. Nánar má lesa um landsráðið á vef Stjórnarráðsins.