Sérstök rannsókn kynnt bráðlega

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landlæknir, sóttvarnalæknir og Lyfjastofnun hafa móttekið mat óháðra rannsóknaraðila, sem tóku til sérstakrar rannsóknar fimm andlátstilfelli í kjölfar bólusetninga hér á landi. Sem fyrr bendir ekkert til þess að orsakasamhengi sé á milli andláta og bólusetninga. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari landlæknis við fyrirspurn mbl.is. 

Þar að auki voru til rannsóknar fimm tilfelli mögulega alvarlegra aukaverkana við bólusetningu, nánar tiltekið fimm tilfelli blóðtappamyndunar.

Tilfelli eftir AstraZeneca, Pfizer og Moderna

Rannsóknin sneri að tilfellum sem komu upp eftir að einstaklingar voru bólusettir með bóluefnum AstraZeneca, Pfizer og Moderna. Það eru þrjú þeirra fjögurra bóluefna sem í notkun eru hér á landi gegn kórónuveirunni, einungis er bóluefni Janssen ekki hluti af þessari sérstöku rannsókn.

Í svari landlæknis er vísað til fréttatilkynningar á vef landlæknis frá 20. maí, sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, skrifa undir. 

Þar segir: 

„Í ljósi þess að um ný bóluefni er að ræða hafa landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar, ákveðið að fá óháða aðila til að fara gaumgæfilega yfir þessi tíu alvarlegu atvik. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort líklegra sé þau tengist undirliggjandi áhættuþáttum eða sjúkdómum. Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé  á milli bólusetningar og þessara alvarlegu atvika. Rannsóknin verður gerð af tveimur óháðum sérfræðingum í lyflækningum og verður henni hraðað eins og kostur er. Hér er um að ræða samskonar athugun og gripið var til í upphafi ársins þegar fimm alvarlegar tilkynningar í hópi aldraðra einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sem dvöldust á hjúkrunarheimilum voru teknar til sérstakrar skoðunar.“

Vonast til að kynna niðurstöður innan skamms

Landlæknir vildi ekki veita upplýsingar um hvaða óháðu sérfræðingar voru fengnir að borðinu. Einungis sagði í svari landlæknis að ekki væri fátítt innan heilbrigðiskerfisins, þegar alvarleg álitamál eru til sérstakrar skoðunar, að óháðir aðilar séu fengnir að borðinu.

Þá segir einnig í svari landlæknis að vonast sé til að kynna niðurstöður óháðu sérfræðinganna innan skamms, nú þegar þær hafa borist embættinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert