„Það á mjög vel við mig að vinna undir álagi. Eldgosin eru alltaf mjög vinsælt fréttaefni sem þarf að fylgjast náið með. Ég nefni t.d. Eyjafjallajökul, Holuhraun og nú Reykjanesskagann,“ segir Guðrún Hálfdánardóttir, blaðamaður á mbl.is. Í gær vann hún síðustu vaktina sína eftir aldarfjórðungs starf á Morgunblaðinu og mbl.is. Fréttamálin eru mörg eftirminnileg.
„Þegar hryðjuverkaárásin var gerð í París haustið 2015 var maðurinn minn staddur þar. Hann hringdi í mig seint á föstudagskvöldi og spurði hvort ég vissi hvað væri að gerast í borginni. Ég var heima með son okkar og vini hans sem ætluðu að gista. Maðurinn minn hafði setið á veitingastað og þar hafist skothríð. Hann vissi ekki hvort þetta væri hryðjuverk eða annað. Ég henti öllu frá mér og fór í tölvuna. Fljótlega sá ég hvað var um að vera og gat látið stoppa prentun blaðsins. Ég fór strax að skrifa fréttir á mbl.is og skrifaði fram á nótt. Einkalífið varð þarna að víkja fyrir vinnunni eins og svo oft þegar stórviðburðir gerast. Maður er annaðhvort í þessu starfi eða ekki. Morgunblaðið kom svo út daginn eftir með hryðjuverkaárás í París á forsíðu, eina íslenska blaðið sem náði því.“
Hrunið 2008 er einnig eftirminnilegt. „Þá voru miklar uppsagnir og við Guðmundur Sv. Hermannsson, þá fréttastjóri á mbl.is, unnum eins og skepnur til að halda fréttaflæðinu gangandi. Ég var aðstoðarfréttastjóri og annað hvort okkar var á vakt allan sólarhringinn,“ Guðrún segir að sér hafi þótt skemmtilegast í vinnunni þegar atið var sem mest og halda þurfti mörgum boltum á lofti í einu.
Hún hóf störf á viðskiptablaði Morgunblaðsins 3. júní 1996 og var þar fram á haust 1997. Þá fór hún ásamt fleirum að vinna að því að búa til fréttavef. Mbl.is fór svo í loftið 2. febrúar 1998.
„Ég var fyrsti blaðamaðurinn á vefnum. Þar skrifaði ég fram á haustið að ég tók við fréttastjórn viðskipta á Morgunblaðinu. Snemma árs 2004 hætti ég í blaðamennsku í hálft ár. Svo kom ég aftur og varð þá aðstoðarfréttastjóri á mbl.is með Guðmundi. Við Sunna Ósk Logadóttir tókum svo við fréttastjórn á mbl.is og gegndum því starfi í nokkur ár. Eftir það varð ég almennur blaðamaður á mbl.is.“
Fullyrða má að Guðrún hafi skrifað hartnær 100.000 fréttir á mbl.is á ferli sínum. Frá 4. október 2004 skrifaði hún tæplega 86 þúsund fréttir. Þær birtust 3.560 mismunandi daga eða að meðaltali 24,1 frétt á dag. Ekki eru til tölur um fréttaskrif hennar frá 1998-2002.
Ítarlegir greinaflokkar Guðrúnar um skólamál, geðheilbrigðismál og börn hafa vakið mikla athygli. Þeirra skrifa hefur hún notið mest á ferlinum. Gríðarlega mikil vinna var að baki hverjum greinaflokki. Guðrún notaði oft sumarfríin í að lesa sér til og taka viðtöl. Svo þurfti að vinna efnið eins hratt og mögulegt var til að það bitnaði ekki á daglegum fréttaskrifum.
„Mér þótti vænt um það þegar Guðrún heitin Ögmundsdóttir, þá formaður UNICEF, hringdi í mig. Hún sagði: „Guðrún, mig dreymdi þig í nótt. Ég ætla að athuga hvort þú ert til í að koma í stjórn UNICEF því þér þykir svo vænt um börn!“ Börn hafa ef til vill verið meginþráðurinn í mínum greinaflokkum og eins fólk í geðheilbrigðiskerfinu. Það er málaflokkur sem mér finnst ákaflega mikilvægur og mikil þörf á að útrýma fordómum gegn. Eins hafa málefni flóttafólks verið mér hugleikin. Mér þykir mjög vænt um fólk,“ sagði Guðrún. En hvað tekur við?
„Ég ætla að byrja á að fara í gott frí og njóta þess að ferðast innanlands í sumar og vera með fjölskyldunni. Ég ætla líka að leyfa mér að sofa út,“ sagði Guðrún. Hún hefur lengi staðið morgunvaktina á mbl.is frá klukkan sex á morgnana og aldrei sofið yfir sig. „Ég er fyrir löngu orðin góðkunningi lögreglunnar hringinn um landið og eins þeirra á stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, hjá Neyðarlínunni og slökkviliðinu!“