Álftin Svanhildur, sem jafnan býr sér hreiður í Elliðaárdal í Reykjavík, og maki hennar komu þremur ungum á legg nú í vor.
Aðstæður hafa breyst eftir að hleypt var úr lóninu við Árbæjarstíflu í október á síðasta ári.
Svanhildur lá að venju á eggjunum á Blásteinshólma ofan við stífluna og til þessa hefur álftaparið hafst við með unga sína ofan stíflunnar en fjölskyldan heldur nú til neðan við stífluna og virðist una hag sínum vel að sögn íbúa á svæðinu, sem fylgjast vel með fuglalífinu við Elliðaár.