Alls mega 300 manns koma saman frá og með 15. júní. Áfram verður grímuskylda í gildi á sitjandi viðburðum. Fjarlægðartakmörk eru aftur á móti komin niður í einn metra.
Veitingastaðir mega vera með opið klukkustund lengur, eða til miðnættis, og síðustu gestir þurfa að vera farnir út af staðnum klukkutíma síðar, að því er segir í tilkynningu.
Heilbrigðisráðherra ákvað þessar breytingar á reglugerð um takmarkanir á samkomum innanlands og eru þær í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Ríkisstjórnarfundur var haldinn í Ráðherrabústaðnum í morgun þar sem farið var yfir minnisblað Þórólfs Guðnasonar.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að staðan hér á landi varðandi heimsfaraldur Covid-19 sé góð. Frá 25. maí síðastliðnum þegar gildandi reglur voru settar hafi 42 einstaklingar greinst með Covid-19 innanlands, þar af 25 í sóttkví.
Síðustu daga hafi daglegum tilfellum fækkað mikið og enginn greinst utan sóttkvíar þrátt fyrir að mörg sýni hafi verið greind. „Það er því ljóst að þakka má útbreiddum bólusetningum á Íslandi og einstaklingsbundnum sýkingavörnum þann góða árangur sem við erum nú að sjá þó að ljóst sé að veiran er enn til staðar í samfélaginu“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.
Nærri 200.000 manns hafa fengið a.m.k. eina bóluefnasprautu og rúmlega 100.000 manns eru fullbólusettir. Rúmlega 90% þeirra sem eru 50 ára og eldri hafa fengið a.m.k. eina bólusetningu en tæplega 50% þeirra sem eru yngri en 50 ára. Sóttvarnalæknir segir enn nokkuð vanta upp á að gott hjarðnæmi náist meðal yngra fólks og því þurfi að fara rólega í afléttingar á sóttvarnaaðgerðum innanlands þar til hærra hlutfall yngra fólks hefur verið bólusett. Einnig bendir hann á að um þrjár vikur tekur að fá góða vernd eftir fyrstu bólusetningu.
Helstu breytingar á samkomutakmörkunum frá og með 15. júní: