Atvinnulausum hefur fækkað mikið eða um 3.400 á átta vikum. Almennt atvinnuleysi fór úr 10,4% í lok apríl í 9,1% á einum mánuði.
Spáð er áframhaldandi snarpri minnkun atvinnuleysis í júní. Gangi það eftir fækkar atvinnulausum á skrá um sex þúsund manns á tveimur mánuðum.
Atvinnuleysið hefur leikið Suðurnesjamenn grátt og mælist enn mikið en það minnkaði þó um-talsvert í maí eða úr 23% í 19,7%.
„Við erum með langmesta atvinnuleysið á Íslandi og við verðum þar sennilega einhver misseri í viðbót, ég hefði gjarnan viljað sjá þetta lækka meira en það á vonandi eftir að gera það í sumar þegar flugvöllurinn er kominn á betra ról,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í umfjöllun um atvinnuleysið í Morgunblaðinu í dag.