„Málið kom fram, eftir því sem ég best veit, í gær. Og ég segi bara að mér finnst alveg fráleitt af Pírötum að senda þetta tundurskeyti hérna inn í þinglokasamninga með þessum hætti, til þess að raska málum.“
Þetta sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, á Alþingi nú fyrir hádegi. Til umræðu var atkvæðagreiðsla um hvort fyrsta mál á dagskrá þingfundar ætti að vera frumvarp Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um strandveiðar.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafði skömmu áður hafið fundinn á þeim fregnum að honum hefði borist bréf frá Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata.
Í bréfinu hafði Helgi Hrafn lagt til að fyrsta mál á dagskrá fundarins yrði þetta lagafrumvarp Lilju.
Steingrímur hugðist í framhaldinu hefja atkvæðagreiðslu um tillöguna. Hana stöðvaði Helgi Hrafn þegar hann sagðist vilja stíga í ræðustól og ræða um tillöguna.
„Þá verðum við að slökkva á,“ svaraði Steingrímur en þá höfðu þegar rauð og græn ljós tekið að prýða þá bráðabirgðagrafík sem komið var upp til að sýna gang atkvæðagreiðslna á tímum fjarlægðartakmarkana.
„Þá ber ekki að taka neitt mark á töflunni í bili,“ kvað forseti upp um leið og Helgi Hrafn steig í ræðustól. „Heppileg regla sem mætti kannski nota,“ bætti Píratinn við að gamni, áður en hann ávarpaði þingsal.
„Háttvirtur þingmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur lagt fram mikilvægt frumvarp, í ljósi þess að nú eru sex, sjö hundruð smábátasjómenn sem standa frammi fyrir mjög alvarlegu atvinnuleysi.“
Helgi Hrafn sagði málið gott, en að Lilja Rafney hefði „spreðað því út um allan bæ“ að það væri á einhvern hátt stjórnarandstöðunni að kenna að málið komist ekki á dagskrá.
„Þess vegna vil ég halda því til haga, að háttvirtur þingmaður er formaður atvinnuveganefndar og ég sit í þeirri nefnd. Háttvirtur þingmaður er með þingflokksformann, sem semur ekki um málið fyrir hennar hönd. Háttvirtur þingmaður er í sama flokki og virðulegur forseti, sem setur málið ekki á dagskrá. Háttvirtur þingmaður er í sama flokki og hæstvirtur forsætisráðherra, sem virðist ekki styðja málið,“ sagði hann.
„Það erum við, sem styðjum málið. Píratar. Og stjórnarandstaðan, vænti ég. Að setja málið á dagskrá, fyrir smábátasjómenn. Sjáum hvað setur.“
Birgir Ármannsson steig næstur í ræðustól.
„Herra forseti, ég veit nú ekkert um stympingar einstakra þingmanna hér og ætla ekki að blanda mér í það. Hins vegar þá er alveg ljóst að það er auðvitað ekki hægt að taka mál af þessu tagi á dagskrá í miðju kafi þegar við erum að reyna að ganga hérna frá þinglokum.
Málið kom fram, eftir því sem ég best veit, í gær. Og ég segi bara að mér finnst alveg fráleitt af Pírötum að senda þetta tundurskeyti hérna inn í þinglokasamninga með þessum hætti, til þess að raska málum.
Það er auðvitað þannig að í þinglokasamningum þá er verið að semja um fjöldamörg mál. Meðal annars er verið að semja fjöldamörg mál út af borðinu, sem hafa fengið umfjöllun í þinginu í allan vetur. Það bara leiðir af sjálfu sér að það er ekki hægt að klára allt saman og með því að stilla mönnum upp við vegg með þessum hætti þá eru þinglokasamningar auðvitað settir í uppnám.“
Þess vegna væri ekkert annað í stöðunni en að fella tillöguna.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði það með ólíkindum að formaður atvinnuveganefndar skyldi leggja fram þingmál vitandi að ekki væri meirihluti fyrir því innan ríkisstjórnarflokkanna.
„Og fari svo í þá vegferð að móbílisera einhverja bylgju um landið í það að kenna stjórnarandstöðunni um að málið komist ekki hér á dagskrá. Ég er nú búinn að vera hérna í tólf ár en ég man ekki eftir svona vinnubrögðum, að menn leggist svona lágt.“
Á sama tíma sé inni í nefndinni þingmál sem myndi taka á þessu sama, sem Lilja Rafney vilji ekki taka á dagskrá.
„Það er ekki boðlegt að taka þátt í þessu. Við munum ekki taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu vegna þess hvernig formaður atvinnuveganefndar hagar sér í málinu.“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, flokkssystir Lilju Rafneyjar og þingflokksformaður, fylgdi á eftir og sagði það ekki í boði að taka málið á dagskrá.
Þingflokksformenn hefðu sammælst um þau mál sem væru til umræðu um að taka á dagskrá fyrir þinglok. Þetta væri ekki eitt þeirra.
„Við verðum á rauða takkanum, fyrir utan formann atvinnuveganefndar.“
Loks sté Lilja Rafney í ræðustól.
„Já, herra forseti. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég hefði haldið að þingheimur væri tilbúinn til þess við þessar aðstæður að tryggja atvinnu í sjávarbyggðum landsins.“
Sagðist hún sem formaður atvinnuveganefndar hafa reynt að ná samstöðu með sjávarútvegsráðherra, um að koma þessu máli í gegn, „margar undanfarnar vikur“.
„Og ég hef barist fyrir bættum hag strandveiðisjómanna og fiskverkafólks í þessu landi. Og ég get ekkert annað en staðið með þessu máli áfram. Vissulega var það þrautalending að koma með þetta mál inn í þing og það var ekki sjálfgefið að stjórnarandstaðan legði því lið.
En það mátti alveg reyna að skoða það í þinglokasamningum, að menn skiptu um skoðun og teldu að þetta væri eitthvað sem skipti máli til að efla atvinnu í landinu. En að menn stæðu ekki uppi hábjargræðistímann að senda strandveiðiflotann í land.“
Tók hún svo af öll tvímæli: „Ég styð þetta mál.“
Þar með var umræðunni þó alls ekki lokið. Á eftir Lilju fylgdu fjórir þingmenn stjórnarandstöðunnar og einn stjórnarþingmaður, áður en röðin var aftur komin að Helga Hrafni. Enn átti eftir að greiða atkvæði um hvort málið yrði tekið á dagskrá.
„Forseta þætti æskilegt að ekki yrðu mikið lengri umræður um þetta mál, af því að þingsköp gera ráð fyrir að tillögur af þessu tagi séu bornar undir atkvæði, umræðulaust,“ sagði Steingrímur hásri röddu um leið og Helgi Hrafn sneri aftur.
„Háttvirtur þingmaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, hún þurfti ekki að fara og ljúga því – það eru ekki stór orð hæstvirtur forseti, það er bara rétt lýsing á því sem átti sér stað – hún þurfti ekki að fara og ljúga því að smábátasjómönnum,“ sagði Píratinn áður en Steingrímur sló í bjöllu forseta.
„Forseti biður menn að gæta hófs í orðavali.“
„Virðulegi forseti, ég er að gæta hófs. En ég skal sleppa þessu orði restina af þessari ræðu, af virðingu við virðulegan forseta.“
Hann hélt svo áfram: „Hún þurfti ekki að gera það. Hún kaus að gera það. Hún kaus að gera það þannig að kenna Pírötum, af öllum, um það að standa í vegi fyrir málinu með því að hafa það ekki með í sínum samningum, í þinglokasamningum, virðulegur forseti.
Hún þurfti ekki að gera það. Það sem við höfum gert í kjölfarið er að við höfum lagt til að málið verði tekið til umræðu hér og það er full alvara á bak við það. Gerum það bara. Það væri rétti leikurinn af meirihlutanum, bara að taka málið til umræðu og samþykkja það. En nei, það má ekki,“ sagði Helgi Hrafn undir bjölluslætti Steingríms.
„Ég bið hagsmunaaðila í þessu máli að fylgjast vel með þessari atkvæðagreiðslutöflu,“ bætti hann við og var sjáanlega heitt í hamsi. Áfram sló Steingrímur í bjölluna.
„Því atkvæðin þarna skipta máli. Niðurstaðan skiptir máli. Hagsmunir sjómanna skipta máli og eru meira en einhver leikur í bragði stjórnmálamanna.“
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, dró ekki úr hitanum í pontu þingsins.
„Virðulegi forseti. Hefði, myndi, skuli og allir vinir hans – ef þetta hefði nú verið í gær eða í fyrradag eða um áramótin. Staðreyndin er sú að staðan er að koma upp núna.“
Inga sagði að Lilju hefði „verið í lófa lagið að koma með þetta mál mun fyrr ef hún hefði þorað og vogað sér að sýna hæstvirtum sjávarútvegsráðherra hornin aðeins, þar sem honum virðist vera nákvæmlega sama um smábátasjómenn.
Það breytir ekki þeirri staðreynd að við erum bara hér til að reyna að tryggja það, að þeir geti fengið þessa aumu 48 daga sem þeim er úthlutað ár hvert til þess að stunda strandveiðar. Það er nú ekki meira en það.
Ég skora því á okkur öll hér, hvort sem fólk er í fýlu út af þessu eða hinu, að hætta þessum fífladansi, sem er okkur til ævarandi skammar, taka þetta út fyrir pólitískar raðir og rifrildi og einfaldlega tryggja það, eins og við gerðum um laxeldið á sínum tíma, þegar allt var í voða fyrir vestan, að smábátasjómennirnir okkar geti að minnsta kosti fengið að veiða þessa 48 daga skammlaust. Það er í okkar valdi að svo megi verða.“
Síðasta orðið hafði svo Lilja Rafney, áður en gengið var til atkvæðagreiðslu:
„Herra forseti. Ég tek ekki þátt í því í þessari heitu umræðu hér, sem allt virðist vera að fara á hliðina yfir, að vera sökuð um að ljúga.“
Gunnar Bragi kallaði þá fram: „Það er nú satt.“
„Það er ekki satt,“ svaraði Lilja um hæl. „Háttvirtur þingmaður Gunnar Bragi Sveinsson ætti aðeins að hugsa um að feta leiðir sannleikans. Ég hef ekki logið neitt í þessu máli. Þingið hefur fulla burði til þess ef mál koma inn, að taka þau á dagskrá í þinglokasamningum. En það var ekki gert. Þannig liggur þetta mál.
Inni í atvinnuveganefnd er frumvarp frá hæstvirtum sjávarútvegsráðherra sem dregur úr afla í strandveiðum og býður upp á að róa á öllum dögum, svo strandveiðar hefðu klárast miklu fyrr hefði það frumvarp nokkurn tíma verið samþykkt. Þannig er nú sá veruleiki. En ég held áfram að berjast fyrir strandveiðum og fyrir sjávarbyggðir landsins og læt ekki saka mig um það vera að ljúga að einum eða neinum. Það er ekki minn háttur.“
Tillagan um að taka málið á dagskrá var að lokum felld með 30 atkvæðum gegn 10. Nítján greiddu ekki atkvæði.