„Þegar fátt er um leiðir verðamenn oft að grípa í úrræði sem er ekki efst á lista. Í þessu tilviki er það að olíuflutningar fari um Hringbrautina.“
Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu í Morgunblaðinu í dag.
Framkvæmdir standa nú yfir við endurnýjun vatns- og fráveitu í Vesturbæ Reykjavíkur og af þeim sökum verður Mýrargata lokuð fyrir bílaumferð næstu þrjár vikurnar. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þýðir þetta að Hringbraut verður eina stofnbrautin fyrir þá sem eiga leið út á Granda og Seltjarnarnes. Lokunin hefur það í för með sér að olíuflutningar úr Örfirisey munu alfarið fara fram um Hringbraut.
Olíuflutningum var markvisst beint þaðan fyrir nokkrum árum og yfir á Mýrargötu og Sæbraut enda þótti ekki heppilegt að þeir færu í gegnum íbúðahverfi. Ljóst má vera að umferð um Hringbraut verður þung næstu vikurnar vegna þessara þungaflutninga sem og annarra sem þurfa að leggja lykkju á leið sína.
Samkvæmt upplýsingum frá Veitum var nauðsynlegt að ráðast í endurnýjun lagna á Vesturgötu, frá Bræðraborgarstíg að Stýrimannastíg og niður á Hlésgötu. Ástæðan er sú að skólp hefur flætt í kjallara húsa við Vesturgötu í leysingum og mikilli úrkomu.