Náðst hefur samkomulag um að stefna að þinglokum á morgun, þetta staðfestir Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Hann segir að fundað verði frameftir í kvöld og svo aftur í fyrramálið. Komi ekkert óvænt upp á megi reikna með að þingi ljúki á morgun.
Miðað við þann málalista sem unnið hefur verið eftir er ljóst að mörg stjórnarfrumvörp muni ekki ná afgreiðslu. Sem dæmi má nefna frumvarp félagsmálaráðherra um málefni innflytjenda og málefni heilbrigðisráðherra um réttindi sjúklinga þar sem fjallað er um margvíslegar þvinganir í heilbrigðiskerfinu.
Hálendisþjóðgarðurinn verður ræddur að sögn Birgis en frumvarpið verður ekki afgreitt heldur verður því vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnu.
Þrátt fyrir það verða tugir mála afgreiddir í dag og á morgun.