Tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann til tveggja ára fangelsisvistar vegna nauðgunar, en dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára vegna margháttaðra geðvandamála mannsins. Upptaka, sem brotaþoli tók upp morguninn eftir verknaðinn, þar sem maðurinn viðurkenndi brot sitt, var á meðal þeirra gagna sem leiddu til sakfellingar í málinu.

Manninum var gefið að sök að hafa nauðgað fyrrverandi kærustu sinni hinn 3. nóvember 2019 á heimili bróður síns, sem hann gisti í herbergi hjá. Höfðu þau verið heima hjá vini ákærða fyrr um kvöldið, þegar hún hefði fundið fyrir kvíðatilfinningu. Hefði ákærði þá gefið henni þrjár Sobril-töflur, en auk þess hefðu þau neytt kannabisefna.

Morguninn eftir hefði brotaþoli ekki munað eftir atburðum næturinnar, en fundið fyrir því að brotið hefði verið á sér kynferðislega. Ákvað hún að taka upp samtal við ákærða um hvað hefði gerst um nóttina og hefði hann þar viðurkennt, að hafa haft samfarir við hana meðan hún svaf. Hlýddi dómari málsins á upptökur konunnar og segir í dómnum að í þeim komi greinilega fram hjá brotaþola að samfarir hennar og ákærða hafi ekki verið með hennar samþykki.

Sakhæfi mannsins var athugað við meðferð málsins, og kom fram í niðurstöðum geðlæknis að maðurinn þjáist af margvíslegum geðrænum vandamálum, meðal annars vægri þroskaskerðingu, þunglyndi, ADHD og merki um heilaskaða. Hann var þó metinn sakhæfur, en sagt að erfitt yrði að sjá að refsing myndi bera árangur.

Refsing mannsins þótti því hæfileg tveggja ára skilorðsbundið fangelsi, og verður maðurinn undir sérstöku eftirliti Fangelsismálastofnunar meðan skilorðstíminn varir. Að auki á ákærði að greiða brotaþola 1,5 milljónir í miskabætur auk vaxta, sem og málsvarnarlaun verjenda sinna, þóknun réttargæslumanns brotaþola og annan sakarkostnað. Nemur sá kostnaður samtals rúmum 4,5 milljónum til viðbótar við bæturnar. Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert