Andlát: Sr. Egill Hallgrímsson sóknarprestur í Skálholti

Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti, er látinn. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Skálholti, 9. júní sl. Egill var fæddur 11. júní 1955 í Reykjavík.

Foreldrar hans voru Hallgrímur Egilsson, garðyrkjubóndi á Grímsstöðum í Hveragerði, og Sigurlaug Guðmundsdóttir. Eftirlifandi eiginkona sr. Egils er Ólafía Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau tvö börn; Sóleyju Lindu, f. 1989, og Hallgrím Davíð, f. 1993.

Sr. Egill varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1976. Hann nam sálarfræði um skeið en sneri sér svo að guðfræði og lauk cand.theol.-embættisprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands. Hann vígðist 12. maí 1991 til Skagastrandarprestakalls og þjónaði þar til ársloka 1997. Hann var kjörinn sóknarprestur í Skálholtsprestakalli og þjónaði þar frá 1. janúar 1998 til dánardags. Skálholtsprestakall spannaði fyrst Biskupstungur en með sameiningu nágrannaprestakalla til þess, þjónaði hann einnig kirkjum og söfnuðum í Grímsnesi, Laugardal, Grafningi og Þingvallasveit.

Áður en Egill hlaut vígslu hafði hann verið starfsmaður í Dómkirkjunni í Reykjavík og verið þar kirkjuvörður og annast barnastarf. Jafnhliða prestskap sinnti Egill stundakennslu í grunnskólum, var með námskeið og fleira.

Af öðrum trúnaðarstörfum sr. Egils má nefna að hann sat í stjórn Prestafélags hins forna Hólastiftis, í fulltrúaráði Hjálparstofnunar kirkjunnar, í stjórn Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti og í stjórn Collegium Musicum, samtaka um tónlistarstarf í Skálholti. Hann var einnig í stjórn Þorláksbúðarfélagsins og vann ötullega í Ísleifsreglunni. Hann var félagi í Frímúrarareglunni á Íslandi um áratugaskeið. Hann útskrifaðist úr námi í stjórnendamarkþjálfun 2017 frá HR. Auk þess lauk hann námi í meðferðardáleiðslu frá Bandaríkjunum árið 2018.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert