Frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um stofnun Hálendisþjóðgarðs var formlega vísað frá Alþingi fyrr í kvöld og til ríkisstjórnar. Ljóst er að frumvarpið verður ekki að lögum á þessu kjörtímabili.
Legið hefur fyrir í nokkurn tíma að ekki ríkti sátt um frumvarpið meðal stjórnarliða og gerði þingflokkur Framsóknar til að mynda ítarlega fyrirvara við málið þegar fyrir því var mælt á þingi. Frumvarpið varð síðan þinglokasamningum að bráð og verður ekki að lögum í kvöld.
Fjölmargar umsagnir bárust um málið, bæði jákvæðar og neikvæðar en samhljómur var á meðal flestra sveitarfélaga og samtaka bænda að málið væri ekki tækt eins og það væri lagt fram. Samráðsferlið við tillögurnar hefur einnig verið gagnrýnt harkalega.
Í kvöld fara fram síðustu þingfundir þessa kjörtímabils og þar með síðustu þingfundir fjölmargra þingmanna sem ýmist gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu eða í sumum tilvikum náðu ekki settum markmiðum sínum í forvölum flokka.
Meðal þeirra sem nú situr sína síðustu fundi er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fyrrum ráðherra og formaður Vinstri grænna til margra ára.