Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, var ræðukóngur 151. þings Alþingis sem lauk í nótt. Var heildarræðutími Birgis einn dagur, þrjár klukkustundir, 20 mínútur og sex sekúndur, en samtals flutti hann 324 ræður.
Næstur á eftir Birgi var Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, en Guðmundur átti jafnframt flestar ræður þingsins, eða 436 talsins. Heildarræðutími Guðmundar var 23 klukkustundir, fjórar mínútur og 23 sekúndur.
Reyndar eru fimm efstu ræðumenn þessa þings þeir sömu og voru fimm efstu á síðasta þingi og eru þeir einnig í sömu röð. Á eftir Guðmundi kemur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata en heildarræðutími hans var 21:50:40 í 412 ræðum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var fjórði með 18:02:24 í 352 ræðum og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var fimmti með heildarræðutíma upp á 17:47:34 í 301 ræðu.
Í næstu fimm sætum eru fjórir þingmenn Miðflokksins, þeir Þorsteinn Sæmundsson, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Karl Gauti Hjaltason, auk Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var sú þingkona sem var með lengstan heildarræðutíma í ár, en hún talaði í 12:52:38 í 361 ræðu.
Þetta er þriðja árið í röð sem Birgir vermir toppsætið yfir ræðukóng Alþingis, en öll þessi þrjú ár hefur heildarræðutími hans verið meira en einn sólarhringur. Í fyrra var ræðutími hans tæplega fimm klukkustundum yfir sólarhring, en á 149. Þingi var ræðutíminn meira en sólarhringur og 17 klukkustundir.