Gæti áfram orðið grátt næstu daga

Mývetningar vöknuðu upp við gráa jörð í morgun.
Mývetningar vöknuðu upp við gráa jörð í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Í morgun vöknuðu íbúar í Mývatnssveit upp við að snjóað hafði um nóttina. Víða á Norður-, Norðaustur- og Austurlandi mátti einnig sjá snjó þegar komið var upp á heiðar og fjallvegi. Búast má við áframhaldandi úrkomu fram eftir degi á þessu svæði og fram á nótt austanlands. Krapi gæti myndast á vegum sem gæti reynst varasamt fyrir bíla á sumardekkjum.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að snjórinn hafi ekki alveg náð niður á láglendi í nótt, en sums staðar hafi hann náð í byggð, meðal annars í Mývatnssveit sem sé í um 200-250 metra hæð yfir sjávarmáli. Segir hann að snjólínan næstu daga muni líklega leggjast í um 200 metra hæð.

Segir Óli að fram undan í dag sé þokkaleg úrkoma á Norðurlandi og út á Austurland, en úrkoman muni minnka á Norður- og Norðausturlandi í kvöld og á Austurlandi eftir miðnætti.

Frostlaust sé í jörðu, en við þessar aðstæður megi búast við því að krapi geti myndast á vegum þegar snjóar og þar þurfi ökumenn sérstaklega að passa sig séu þeir á sumardekkjum.

Spurður hvort þetta sé óvenjulegt veður fyrir júnímánuð segir Óli að svo sé alls ekki. Þetta komi alltaf reglulega fyrir í þessum mánuði, en hafi reyndar ekki gerst oft síðustu ár. „Með svona svalt loft yfir landinu var þetta alveg viðbúið,“ segir hann og bætir við að kalt veður í júní virðist þó alltaf koma fólki jafn mikið á óvart.

Snjór á Möðrudalsöræfum í dag.
Snjór á Möðrudalsöræfum í dag. Ljósmynd/Karl Eskil Pálsson

Þegar horft er til næstu daga segir Óli að áfram gæti orðið grátt alveg undir sjávarmál á nóttunni og fram á morgun þar sem sé úrkoma norðan- og austanlands. Áfram verði norðlægar áttir ríkjandi út vikuna með kaldara lofti.

Það verði svo ekki fyrr en eftir 17. júní sem það stefni í að skammvinn hlýindi komi yfir landið með suðlægum vindum. „En það verða ekki viðvarandi hlýindi,“ bætir Óli við og segir að ekki sé heldur um mikil hlýindi að ræða. „En þetta gæti tekið mesta hrollinn úr fólki.“

Hann segir langtímaspána breytast nokkuð milli daga og spáin fyrir næsta föstudag hafi til dæmis batnað nokkuð frá gærdeginum. Það sé einnig breyting til batnaðar og ef eitthvað sé kuldinn að gefa aðeins eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert