„Ein magnaðasta upplifun ævi minnar“

Vincent ólst upp í Wyoming-ríki Bandaríkjanna þar sem Yellowstone-ofureldfjallið kveikti …
Vincent ólst upp í Wyoming-ríki Bandaríkjanna þar sem Yellowstone-ofureldfjallið kveikti áhuga hans á eldfjöllum. Facebook

„Þetta var örugglega ein magnaðasta upplifun ævi minnar og ég sé ekki eftir neinu, þrátt fyrir allt hatrið sem ég hef uppskorið á netinu,“ segir Vincent Van Reynolds, hljóðfærasmiður, tónlistarmaður og eldfjallaáhugamaður frá Wyoming-ríki Bandaríkjanna, en hann vakti um helgina mikla athygli fyrir ferð sína að gosstöðvunum í Geldingadal, þá er mörgum þótti óþarflega glannaleg.

Í samtali við mbl.is segir Vincent sig hafa vitað að hann væri að gera eitthvað rangt en sér til varnar megi nefna að hann hafi kynnt sér eldgos allt sitt líf og hafi auk þess kannað aðstæður vel áður en hann lagði í háskaförina frægu.

Búi að vísindalegri þekkingu og reynslu

Vincent, sem ólst upp rétt hjá Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum sem þekktur er fyrir eitt stærsta „ofureldfjall“ heims, vill koma nokkrum hlutum á framfæri. Hann hafi brennandi ástríðu fyrir eldfjöllum auk þess sem hann nam jarðfræði í háskóla og sé því með vísindalegan bakgrunn á þessu sviði.

Auk þess hafi hann gengið um Kilauea-eldstöðvarnar á Hawaii þegar þær gusu seinast og búi því yfir reynslu á þessu sviði. Hann segist hafa tryggt að aðstæður væru öruggar og hafi því ekki „anað þangað út í einhverri blindni“ líkt og áætla mætti út frá myndskeiðinu fræga.

Vincent segir að björgunarsveitarmennirnir við gosstöðvarnar hafi verið vinalegir en …
Vincent segir að björgunarsveitarmennirnir við gosstöðvarnar hafi verið vinalegir en beðið hann um að vinsanlegast fara ekki eins nálægt gígnum aftur. Facebook

Munur net- og raunheima skondinn

Síðan myndskeiðið komst í fréttir á föstudaginn var segir Vincent að margir Íslendingar hafi sagt honum á netinu að „fara og koma aldrei aftur til Íslands“. Sú sé þó ekki staðan í raunveruleikanum.

„Fólk hefur komið upp að mér alla helgina og kannast við mig sem „eldfjallagæjann“ úr fréttunum. Ég fór að skoða foss á laugardaginn og fólk sem var þar vissi hver ég var og bað um sjálfumyndir með mér,“ segir hann og bætir við að hann geti því miður ekki borið fram nafn fossins, enda vefst erlendum einstaklingum oft tunga um tönn þegar kemur að íslenskum staðarheitum.

Kom til Íslands í einum tilgangi

Þá segir hann að hann hafi aðeins komið til Íslands í þeim eina tilgangi að skoða gosið. „Ég lenti á föstudaginn og dreif mig að gosinu,“ segir Vincent, en hann er fullbólusettur með bóluefni Pfizer. Hann hafi farið aftur að gosinu í dag og þar hafi björgunarsveitarmenn kannast við hann. „Þeir voru mjög næs en báðu mig vinsamlegast um að gera þetta ekki aftur,“ segir Vincent að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka