„Frumvarpið byggir eins og önnur er lúta að frelsisskerðingum á skaðalögmáli Johns Stuarts Mills,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, um frumvarp heilbrigðisráðherra um lög og réttindi sjúklinga sem nú liggur fyrir Alþingi og bætir við að frumvarpið hafi einungis verið unnið í samráði við geðsvið Landspítalans.
„Verði heimildir þess lögfestar mun það veita starfsfólki heilbrigðisstofnana víðtæka heimild til þess að beita nauðung og þvingun við meðferð einstaklinga, sem samrýmist ekki lengur þeim gildum sem ríkja um meðferð sjúklinga í nútímasamfélagi. Kom sú hugmyndafræði sterkt fram þann 28. maí 2021 þegar sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í mannréttindum beindu því til Evrópuráðsins að draga til baka drög að viðbótarákvæði við Ovieda-samþykktina og skoruðu á Evrópuráðið að hafna áframhaldandi lögleiðingu þvingunar við geðmeðferð. Það skýtur skökku við að fara fram með frumvarp sem víkkar verulega heimildir heilbrigðisstarfsfólks til beitingar nauðungar án samráðsferlis við fulltrúa notenda og aðstandenda.“
Til þess að lagabreytingin sem felst í frumvarpinu samrýmist stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, sem Ísland er aðili að, er það grundvallarforsenda, að dómi Héðins, að efnisákvæði þeirra kveði ekki á um heimild til að víkja frá banni við beitingu nauðungar með jafn víðtækum hætti og gert er í frumvarpinu.
„Það stríðir gegn mannréttindum og mannhelgi einstaklinga að heimila nauðung sem fyrirbyggjandi aðgerð sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem geti leitt til tjóns, eða í þeim tilgangi að uppfylla grunnþarfir viðkomandi, svo sem varðandi mat, heilsu og hreinlæti eða til þess að draga út hömluleysi. Þá er nauðung heimil í neyðartilvikum til þess að koma í veg fyrir tjón. Orðalag framangreindra ákvæða frumvarpsins gefur ástæðu til að ætla að beiting þeirra verði að meginreglu frekar en undantekningu. Jafnframt stríðir það gegn mannhelgi einstaklinga að heimila nauðung fyrir fram í allt að þrjá mánuði í senn. Eina markmið laganna virðist vera að gera það löglegt sem áður var ólöglegt – það er að gefa starfsmönnum valdheimildir til að beita fólk nauðung.“
Nánar er rætt við Héðin og Grím Atlason, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.