Hraunið frá eldgosinu í Geldingadölum flæðir nú upp úr Geldingadölum að sunnanverðu og yfir gönguleiðina sem þekkt er sem gönguleið A og ofan í Nátthaga. Þar með er komið ný rás niður í Nátthagann, en áður hafði flætt þangað úr suðurhluta Meradala. Miðað við vefmyndavél mbl.is frá Nátthaga náði tungan saman við hraunið sem áður var í Nátthaga um klukkan níu í morgun.
Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að þetta hafi verið viðbúin þróun. „Við bjuggumst við þessu en vissum ekki hvenær það yrði.“
Eftir þetta er gönguleið A orðin ófær að gosstöðvunum, en það var aðalgönguleiðin og sú leið sem farið var að Gónhóli, áður en hraunflæðið lokaði einnig uppgöngu þangað.
Hjálmar segir að landverðir séu á svæðinu og að hann geri ráð fyrir að þeir leiðbeini fólki sem sé mætt til að skoða svæðið um hvernig best sé nú að fara. Segir hann líklegast að fólki verði beint á gönguleið B, en hún er vestan megin við gossvæðið. Í vikunni var tilkynnt að Grindavíkurbær væri að skoða að leggja nýja gönguleið á svipuðum slóðum að gosinu nú þegar ljóst væri að gönguleið A gæti orðið hrauninu að bráð.