Landhelgisgæslan var kölluð til nú á ellefta tímanum í dag til að athuga hvort einhver hefði orðið innilyksa við gosstöðvarnar eftir að hraun fór að flæða upp úr Geldingadölum að sunnan og yfir gönguleið A og ofan í Nátthaga að vestanverðu. Við þessa breytingu varð til stór óbrynnishólmi sem áður var hluti af vinsælustu gönguleiðinni að gosinu.
Líkt og mbl.is greindi frá fyrir skömmu fór hraunið að flæða þessa nýju leið í morgun og náði saman við hraunið sem var fyrir í Nátthaga klukkan níu í morgun.
Samkvæmt Landhelgisgæslunni var áhöfn þyrlunnar á leið til æfingar á Reykjanesi nú á ellefta tímanum þegar beiðni kom um að athuga hvort einhverjir væru innlyksa á óbrynnishólmanum. Var þá þyrlan á flugi rétt við gosstöðvarnar. Samkvæmt vakthafandi í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er ekki vitað til þess að neinn hafi orðið innlyksa, en gengið verði úr skugga um það með ítarlegri leit.