Íbúar ósáttir við afgirt útileiksvæði á sameign

Bríetartún Leikskólinn verður á jarðhæðinni og útileiksvæði þar fyrir framan. …
Bríetartún Leikskólinn verður á jarðhæðinni og útileiksvæði þar fyrir framan. Þar verður tekið á móti 60 börnum á aldrinum frá 12 mánaða til þriggja ára. mbl.is/sisi

Ekki eru allir íbúar í Bríetartúni 9-11 sáttir við að ráðast skuli í byggingu ungbarnaleikskóla á jarðhæð hússins. Skortur á samráði Reykjavíkurborgar við íbúa hússins valdi reiði.

Reykjavíkurborg samþykkti í mars síðastliðnum leigusamning við fasteignafélagið Íþöku vegna húsnæðis fyrir leikskóla í Bríetartúni 9-11. Í þeim samningi var tekið fram að Íþaka skyldi útbúa 520-530 fermetra afgirt útileiksvæði áfast við húsið sunnan- og austanvert. Leigusamningurinn er tímabundinn og gildir í 10 ár frá afhendingu húsnæðisins. Leigugjald greiðist svo frá afhendingu húsnæðis og er það 2.666.000 krónur á mánuði. 

Ekki leikskólinn sjálfur sem er þrætueplið

Í samtali við mbl.is segir Svava Aradóttir, formaður húsfélagsins, „mikilvægt að það komi fram að það er ekki vegna leikskólans sem slíks að óánægja hefur komið fram, það er fyrst og fremst vegna þess að útisvæði leikskólans verður sett á sameiginlega lóð íbúa“.

Svava segir vissulega einhverja íbúa ekki hrifna af því að hafa þarna leikskóla yfir höfuð, en það sé ekki helsta þrætueplið. „Það er fyrst og fremst þessi sameiginlega lóð sem tekin hefur verið undir leikskólann án samráðs við íbúa.

Á fyrstu hæðinni var alltaf gert ráð fyrir einhvers konar atvinnuhúsnæði og þar var átt við húsnæðið sjálft en ekki þessa sameiginlegu lóð íbúa í húsinu,“ segir Svava.

Annar íbúi í húsinu, Jón Þorvarðarson, tekur undir orð Svövu í þessu máli í samtali við mbl.is. „Ég gæti hugsað mér margt verra en leikskóla þarna niðri. Hins vegar finnst mér fullmikill yfirgangur í þessu máli og ekki nægilegt samráð við eigendur af hálfu borgarinnar og fasteignafélagsins Íþöku.“

Fasteignafélagið Íþaka á nokkrar stórar eignir í Borgartúni
Fasteignafélagið Íþaka á nokkrar stórar eignir í Borgartúni mbl.is/Baldur Arnarson

Úrlausn í málinu liggur ekki fyrir

Í 30. grein laga um fjöleignarhús er tekið fram að ekki sé hægt að ráðast í byggingu, endurbætur eða framkvæmdir sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi án samþykkis allra eigenda í húsinu.

Sölvi Melax, framkvæmdastjóri Heimaleigu, fer með umboð fyrir 20 íbúðir í húsinu sem nýttar eru til útleigu. „Við lítum svo á að lögfræðingar þurfi að skera úr um það hvort þetta sé meiriháttar breyting á hagnýtingu sameignar. Þetta er ekkert spurning um mína skoðun eða einhvers annars,“ segir Sölvi í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka