Morð skekur Færeyjar

Davíð Óskar Ólafsson við tökur á Trom í Færeyjum.
Davíð Óskar Ólafsson við tökur á Trom í Færeyjum. Ljósmynd/Metusalem Björnsson

Hannis Martinsson, reynslumikill færeyskur blaðamaður, sem starfar í Danmörku, fær óvænt skilaboð frá dóttur sem hann vissi ekki að hann ætti heima í Færeyjum. Dóttirin, sem er aðgerðasinni og hvalavinur með meiru, er í þann mund að ljóstra upp um mikið leyndarmál og óttast að líf hennar sé í hættu. Hún vill fá föður sinn heim til að hjálpa sér að segja safaríka söguna sem komi til með að skekja samfélagið.

Forvitnin grípur Hannis sem slær til og heldur sem leið liggur til Færeyja í fyrsta sinn í þrjá áratugi. Hann er hins vegar ekki fyrr kominn heim en dóttir hans finnst látin. Ekki dregur það úr áhuga Hannisar að rannsaka málið og leiða fram sannleikann. Og hann er ekki einn um það, lögreglan hefur einnig rannsókn undir stjórn danskrar lögreglukonu búsettrar í Færeyjum, Körlu Mohr. Og þetta litla einangraða samfélag stendur á öndinni og spyr sig: Hvað býr hér eiginlega undir?

Skeggrætt á settinu. Davíð Óskar lengst til hægri, þá Marta …
Skeggrætt á settinu. Davíð Óskar lengst til hægri, þá Marta Óskarsdóttir, Peter Ahlen, Ásgrímur Guðbjartsson og Owen Fiene. Finnur Justinussen


Fyrstu færeysku þættirnir fyrir alþjóðamarkað

Þannig liggur landið í Trom, fyrstu glæpaþáttunum fyrir alþjóðlegan markað sem framleiddir eru og teknir upp í Færeyjum, en tökum lauk á föstudaginn. Þættirnir, sex að tölu, byggjast á bók færeyska rithöfundarins Jógvans Isaksens en Torfinn Jákupsson skrifar handritið. Leikstjórar eru Daninn Kasper Barfoed og Íslendingurinn Davíð Óskar Ólafsson.

Með helstu hlutverk fara dönsku leikararnir Ulrich Thomsen og Maria Rich ásamt hinum færeyska Olaf Johannessen. Barfoed leikstýrir fyrri þáttunum þremur en Davíð Óskar seinni þremur.

„Þetta er fyrsta alvöruserían sem byggð er á á færeysku efni en töluð er færeyska og danska í þáttunum og smávegis enska,“ segir Davíð Óskar gegnum símann frá Þórhöfn. „Það eru allir mjög spenntir fyrir þessu verkefni hér í Færeyjum og um leið og maður nefnir Trom þá vill fólk allt fyrir mann gera. Færeyingar eru yndislegt fólk og mjög hjálplegir að upplagi. Manni er tekið sem innfæddum.“

Lýkur lofsorði á leikarana

Barfoed er svokallaður konseptleikstjóri sem þýðir að hann leggur línurnar en Davíð Óskar kveðst þó hafa mikið frelsi við sína vinnu. Hann kom til Færeyja fyrir tveimur mánuðum og fór þá vandlega yfir sviðið með Barfoed, sem þá var að ljúka við tökur á sínum þáttum. Síðan hvarf hann á braut en þeir hafa vitaskuld verið í góðu sambandi. Davíð Óskar hafði ekki unnið með neinum af leikurunum áður en þekkti vel til Thomsens og Rich enda uppalinn í Danmörku. „Við Ulrich höfum náð vel saman og ekki spillti fyrir að móðir mín klippti eina af frægustu myndunum hans, Festen,“ segir Davíð Óskar en hann er sonur Valdísar Óskarsdóttur, sem einnig klippir Trom. „Maria er líka yndisleg og Olaf æðislegur.“

Hvernig kom til að þú varst fenginn að verkefninu?

„Ég sat bara heima í janúar í miðjum heimsfaraldri þegar ég fékk símtal þess efnis hvort ég hefði áhuga á að leikstýra Trom. Ég hef unnið mikið með Truenorth sem sér um framleiðsluna og svo hefur það ábyggilega ekki spillt fyrir að ég tala reiprennandi dönsku. Ég var víst einn af mörgum sem komu til greina en fékk verkefnið. Ég er svakalega ánægður með það enda kom þetta þannig lagað upp úr þurru. Þetta hefur verið frábært tækifæri fyrir mig til að vinna með nýju fólki og taka skrefið inn á alþjóðlegan markað. Það er mikilvægt að sýna að maður geti leikstýrt á öðru tungumáli en íslensku.“

Nánar er rætt við Davíð Óskar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert