Jón Gunnarsson, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöðu prófkjörsins í Suðvesturkjördæmi fela í sér traustyfirlýsingu til formanns flokksins og þingmanna hans. Hann hlaut annað sæti en litlu munaði á þeim Bryndísi Haraldsdóttur.
Yfirleitt hefur kjördæmið átt 5 – 6 sæti á þingi en í síðustu kosningum náði það aðeins fjórum mönnum inn. „Við hyggjumst endurheimta þessi tvö sæti í kosningum í haust.“
„Ég er mjög sáttur og þakklátur mínum stuðningsmönnum sem skópu þennan sigur með mér og þeim árangri sem við náðum,“ segir Jón og bætir við að flokkurinn tefli fram öflugum lista fyrir Suðvesturkjördæmi.
Jón segir kostnaðinn af baráttunni hafa verið í samræmi við önnur ár í prófkjöri en svona kosningabaráttur kosti sitt.
Það sem Jóni þykir standa upp úr sé lýðræðisleg aðferð Sjálfstæðisflokksins til að velja fólk á lista. Yfir 20.000 manns taki þátt í að velja fólk á framboðslista flokksins fyrir næstu alþingiskosningar.
Hann segir að það sé þess virði að veita þessu sérstaka athygli í ljósi þess hvernig aðrir flokkar reyni oft að skilgreina Sjálfstæðisflokkinn sem klíkuflokk. Þeir flokkar velji svo jafnvel á sína lista í „reykfylltum bakherbergjum“.
Jón telur ekki halla á konur þótt aðeins tvær konur hafi komist á hinn sex manna lista. Hann bendir á að konur séu á heildina litið að ná góðum árangri í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins, þá séu nokkrar að koma nýjar inn á lista.