Tilkynnt var um þrjár líkamsárásir í miðbænum í nótt. Tvær af árásunum áttu sér stað á eða við skemmtistaði samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Í einu tilvikinu var tilkynnt um líkamsárás í miðbænum. Var einn handtekinn grunaður um árásina og hann vistaður í fangaklefa í nótt í þágu rannsóknar málsins. Í annað skiptið var tilkynnt líkamsárás á skemmtistað. Þar var einnig einn handtekinn og vistaður í fangaklefa í nótt.
Í þriðja skiptið var tilkynnt líkamsárás fyrir utan skemmtistað í miðbænum. Ekki kemur þó fram að neinn hafi verið handtekinn vegna þess máls.
Þá var tilkynnt um líkamsárás fyrir utan fjölbýlishús í Kópavogi. Í dagbók lögreglunnar kemur ekki fram hver eftirmál þeirrar árásar séu eða hvort einhver hafi verið handtekinn.
Nokkuð var um mál þar sem lögreglan hafði afskipti af meintum ölvunar- eða fíkniefnaakstri í nótt. Í eitt skiptið var tilkynnt umferðaróhapp í Bústaðahverfinu, en annar ökumaðurinn hafði ekið á brott. Var hann handtekinn skömmu síðar og er grunaður um ölvunarakstur.