Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna stunguárásar fyrir utan Fjallkonuna við Hafnarstræti í nótt. Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og úrskurðaður í fimm daga varðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, eða til 18. júní.
Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Rannsókn málsins miðar vel að sögn lögreglu. Fórnarlamb árásarinnar, sem er á svipuðum aldri og árásarmaðurinn, liggur nú á gjörgæsludeild Landspítalans. Maðurinn mun vera í lífshættu.
Enn liggur ekkert fyrir um aðdraganda árásarinnar og er árásarvopnið enn ófundið. Um tengsl mannanna segist Grímur ekkert geta gefið upp.