Ekki hægt að tengja yfirlið við einstaka bóluefni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að yfirlið við bólusetningu séu bara …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að yfirlið við bólusetningu séu bara viðbrögð við athöfninni sjálfri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að sér þyki afar ólíklegt að tengsl séu á milli þess að fólk falli í yfirlið við bólusetningu og bóluefnanna sjálfra. Einhverjir hafa á undanförnum dögum viljað meina að fleiri falli í yfirlið nú þegar bóluefni Janssen er oftar í notkun. Þetta vildi Þórólfur ekki kannast við.

„Tja, ég veit nú hreinlega ekki hvað þú ert að vísa í. Það er ekkert yfirlið nema bara akkúrat á meðan verið er að bólusetja. Það tengist ekkert bóluefninu, þar er bara þessi verknaður að bólusetja, með nálina og stinga og sprauta, sem er vel þekkt hjá ungu fólki að geta valdið yfirliði,“ segir Þórólfur við mbl.is.

Djammið enn undir smásjá

Þórólfur segir að takmarkanirnar sem taka gildi á miðnætti taki mið af stöðu faraldursins, eins og hingað til hefur verið markmiðið. Skemmtanalífið sé þó enn undir eins konar smásjá enda séu þar mestar líkur á smiti. Það sé einungis vegna þess að fullt fólk er líklegra til þess að gæta ekki að smitvörnum. 

„Djammið er náttúrlega langmesti áhættustaðurinn. Við höfum séð það í gegnum þennan faraldur og fólk sem er að drekka og skemmta sér er ekki að hugsa mikið um sóttvarnir. Það höfum við séð og þarf engan stjörnufræðing til að sjá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert