Reyna að stýra leið hraunflæðis

Ráðist hefur verið í gerð leiðigarðs syðst í Geldingadölum.
Ráðist hefur verið í gerð leiðigarðs syðst í Geldingadölum. Ljósmynd/Almannavarnir

Ráðist hefur verið í gerð leiðigarðs syðst í Geldingadölum og varnargarðs sem minnka á líkur á eða seinka því verulega að hraun fari niður í Nátthagakrika, segir í fréttatilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Ákvörðun um aðgerðirnar var tekin í samráði við Grindavíkurbæ og aðgerðastjórn eftir að hraun tók að renna úr syðsta hluta Geldingadala, yfir gönguleið A og áfram niður í Nátthaga í gær. Sem áður er aðgerðunum ætlað að verja mikilvæga innviði á Reykjanesi og mun verkfræðistofan VERKÍS halda utan um framkvæmdirnar fyrir almannavarnir.

Þessi framvinda var fyrirséð en nokkru fyrr en búist var við. Í kjölfarið var farið betur yfir hermanir á hraunflæði frá þessu svæði. Út frá því má reikna með frekara hraunflæði og líka niður í Nátthagakrika en þaðan er opið svæði í norður, vestur og suður,“ segir í tilkynningunni.

Við gerð leiðigarðsins verður notast við sömu hönnun og við gerð varnargarðanna sem reistir voru ofan við Nátthaga á sínum tíma. Stefnt er á að hafa hann fjögurra metra háan til að byrja með. 

Samkvæmt almannavörnum verður byrjað á því að setja neyðarruðning upp við núverandi hraunrönd til að stöðva frekari framgang. Sem fyrr verður notast við efni sem er fyrir á svæðinu. Öll framkvæmd á svæðinu er með þeim hætti að hægt verður að slétta úr þeim aftur og færa svæðið til fyrra horfs.

Ekki liggur fyrir hve langan tíma framkvæmdirnar munu taka en samkvæmt upplýsingum almannavarna má búast við því að það verði nokkrir dagar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert