Klifurskríkja er nú í heimsókn á Íslandi eftir flug yfir Atlantshaf frá vesturheimi. Litli flækingsfuglinn er aðeins 11-13 cm að lengd og hefur undanfarna daga haldið til á Snæfellsnesi.
Samkvæmt upplýsingum frá sr. Sigurði Ægissyni er þetta einungis í fjórða sinn sem sést hefur til klifurskríkjunnar hérlendis en áður sást hún árin 1970, 1991 og 2020.
Klifurskríkja verpir í Norður-Ameríku og vetrarstöðvarnar ná frá Suðurríkjum Bandaríkjanna, suður um Mið-Ameríku og Vestur-Indíur til Ekvador, Kólumbíu og Venesúela.
Klifurskríkja heldur sig einkum í votlendum laufskógum. Flestar tegundir ættarinnar tína skordýr af laufblöðum, en klifurskríkjan fetar sig eftir trjástofnum og stórum greinum og leitar skordýra í holum og rifum, ekki ósvipað og glókollur og músarrindill gera. Af þessu dregur hún nafn.
Klifurskríkjan sem nú er í heimsókn hérlendis er karlfugl.