Andlát: Gunnar Birgisson

Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson.

Gunnar Birgisson, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri, lést á heimili sínu í gær 73 ára að aldri.

Gunnar fæddist í Reykjavík þann 30. september 1947 og var sonur hjónanna Birgis Guðmundssonar matsveins, d. 1962, og Auðbjargar Brynjólfsdóttur, starfsmanns heimilishjálparinnar í Reykjavík, d. 2000.

Gunnar var kvæntur Vigdísi Karlsdóttur sjúkraliða en saman eiga þau dæturnar Brynhildi og Auðbjörgu Agnesi Gunnarsdætur, fæddar 1968 og 1976.

Gunnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972 og síðan grunnnámi í verkfræði í Háskóla Íslands árið 1977. Þá flutti Gunnar til Edinborgar þar sem hann hlaut meistaragráðu í byggingarverkfræði frá Heriot-Watt University árið 1978. Gunnar lauk svo doktorsprófi í jarðvegsverkfræði í University of Missouri árið 1983.

Gunnar starfaði sem verkfræðingur hjá Norðurverki og Hönnun hf. á áttunda áratugnum en tók við sem framkvæmdastjóri Gunnars og Guðmundar ehf. og gegndi þeirri stöðu frá 1980 til 1994. Hann var einnig forstjóri Klæðningar hf. frá árinu 1986.

Hann var formaður Verktakasambands Íslands árin 1986 til 1991 og varaformaður þess 1985-1986. Gunnar sat í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands á árunum 1985 til 1992 og var varaformaður þar 1989 til 1992. Ásamt því sat Gunnar í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem formaður frá árinu 1991 til 2009. Gunnar átti auk þess verkfræðistofuna Grundun.

Gunnar sinnti einnig ráðgjafarstörfum fyrir hin ýmsu fyrirtæki og félög.

Hann var fyrst varaþingmaður árið 1992 en sat á þingi frá árinu 1999 og til 2006 fyrir Sjálfstæðisflokkinn í núverandi Suðvesturkjördæmi. Hann var oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi frá árinu 1990 til 2005 og þá einnig formaður bæjarráðs Kópavogs. Gunnar tók við sem bæjarstjóri Kópavogs árið 2005 og gegndi því starfi til 2009. Hann tók við sem bæjarstjóri Fjallabyggðar árið 2015 og starfaði sem slíkur til 2019. Hann sinnti síðast stöðu sveitarstjóra Skaftárhrepps tímabundið árið 2020.

Árið 2017 kom ævisaga Gunnars út. Þar kom fram að Gunnar hefði alist upp í fátækt en fljótt komið í ljós að hann væri hamhleypa til verka. Hann braust til mennta og fann sína fjöl sem verkfræðingur og stjórnmálamaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert