Fyrsta þota flugfélagsins PLAY er mætt til leiks og flaug hún nokkra hringi yfir höfuðborgarsvæðinu nú síðdegis í tilefni dagsins. Fyrsta flug félagsins verður á fimmtudaginn og verður flogið til Lundúnar.
„Fyrsta vélin okkar var að koma til landsins og við erum bara svona að sýna hana og fagna því,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, í samtali mbl.is.
Fagurrauð þotan er af gerðinni Airbus 321 NEO og heitir TF-AEW, að sögn Birgis.
Óhætt er að áætla að kynningarflug vélarinnar hafi vakið athygli fólks á jörðu niðri en lítið hefur verið um flugvélar á lofti síðastliðið árið vegna heimsfaraldursins. Birgir segir flugið merki um bjartari tíma fram undan.
„Það er hreinlega óvanalegt að sjá flugvél á lofti núna þannig nú er það bara að vekja alla til vitundar um að heimurinn sé að opnast aftur og það er hægt að fara ferðast á ný.“
PLAY hefur efnt til gjafaleiks sem hluta af kynningarherferð flugfélagsins þar sem þeir sem ná mynd af vélinni á lofti og setja hana inn á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #spottaðiplay eiga möguleika á að vinna 50.000 kr. gjafabréf í flug.
Auk Lundúna mun PLAY fljúga til fimm annarra áfangastaða. Það eru Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn og París.
Hlutafjárútboð Play fyrir skráningu félagsins á First North-markaðinn hefst svo 24. júní.