Höfum séð það svartara

Ær með lömb á beit í flekkóttu heimatúni.
Ær með lömb á beit í flekkóttu heimatúni. Ljósmynd/Sigvaldi H. Ragnarsson

„Það var apríllegt í nótt en við höfum séð það svartara,“ segir Sigvaldi H. Ragnarsson, bóndi á Hákonarstöðum á Jökuldal. Snjóað hefur í fjöll á Norðuraustur- og Austurlandi og sums staðar hefur gránað í rót í byggð. Ekki virðist vorhretið hafa teljandi áhrif á búskap en þar sem kaldast er hægir á vexti gróðurs.

„Mér leið furðulega þegar ég fór út í morgun og horfði á snjóinn í fjöllunum. Mér leið eins og það væri kominn október og ekkert búið að heyja. Það var slæm tilfinning,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, bóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði. Snjór var lágt í fjöllum, misjafnlega mikill eftir svæðum. Telur Baldur að út með firði sé snjór nánast niður að sjó. Á bæjum sem standa hátt inni í Eyjafirði var snjór á hlaði.

„Þetta hefur engin áhrif á mig sem kúabónda. Svona bleytuhríð er hins vegar slæm fyrir lambfé og nýköstuð folöld. Kvígurnar mínar sem eru úti komast í skjól og fá nóg að éta,“ segir Baldur.

Hann segir að snjórinn geri gróðrinum ekki neitt en vissulega hægi á sprettu í kuldanum. Í lagi sé með kornakra á meðan ekki frýs. „Það er síðan ótrúlegt hvað allt tekur við sér þegar það kemur rekja,“ segir Baldur.

Kuldalegt á fénu

„Ef það verður ekki annað en þetta hefur það sáralítil áhrif á búskapinn,“ segir Snorri Kristjánsson, bóndi á Stafni sem er efst í Reykjadal og stendur bærinn í um 240 metra hæð yfir sjávarmáli. Hann segir að féð sé að mestu farið af túnunum og út í heiðina. Telur hann að því sé ekki hætt þótt gránað hafi í rót um hádegisbil í fyrradag. „Manni finnst kuldalegt á fénu á meðan á þessu stendur,“ segir Snorri og lætur þess getið að ef áfram verði kalt sé ákveðin hætta á að ærnar þorni upp og það komi þá niður á vexti lambanna.

Snorri segir að gróður staðni í svona kulda en hann falli ekki á meðan ekki geri frost. Reyndar telur hann líklegt að hitinn hafi farið aðeins niður fyrir frostmark í fyrranótt en ekki teljandi mikið.

„Við höfum oft séð það svartara á þessum tíma. Áhlaup í júní eru ekki óalgeng hér,“ segir Snorri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert