Breski auðmaðurinn Sir Jim Ratcliffe mun sjálfur fjármagna byggingu fjögurra nýrra veiðihúsa á Norðausturlandi á næstu misserum. Fjárfestingin nemur minnst fjórum milljörðum króna. Þessar framkvæmdir eru hluti af fyrirætlunum Ratcliffe og félags hans, Six Rivers Project, um uppbyggingu á svæðinu og vernd Norður-Atlantshafslaxins. Greint var frá fyrirhugaðri uppbyggingu á blaðamannafundi í dag.
Byggð verða ný veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði, Hofsá og í Vesturárdal, auk þess sem rísa mun viðbygging við veiðihús Six Rivers Project við Selá í Vopnafirði. Uppbyggingin kallar ekki á frekari jarðakaup, að því er fram kemur í tilkynningu.
Six Rivers Project áformar að veiðihúsin nýju muni laða að laxveiðimenn hvaðanæva að sem láti sig viðgang og verndun Norður-Atlantshafslaxins varða. Rekstur ánna verði sjálfbær og föst regla verði um að öllum veiddum fiski sé sleppt. Þá muni allur ágóði rennur til verndarstarfsins. Búist er við því að starfsemin færi Norðausturlandi sjálfbæra fjárfestingu og styðji við verndun Norður-Atlantshafslaxins á svæðinu til framtíðar, að því að segir í tilkynningu.
„Framkvæmdirnar sýna á skýran máta markmið okkar um verndun Norður-Atlantshafslaxins í ánum á Norðausturlandi. Með byggingu veiðihúsa af bestu gerð á þessum afskekkta hluta landsins vonumst við til að búa gestum okkar einstaka reynslu við stangveiðar. Tekjurnar af þeirri starfsemi gagna svo til fjármögnunar áframhaldandi verndarstarfs,“ er haft eftir Gísla Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra Six Rivers Project, í áðurnefndri tilkynningu.