Fyrsta skóflustungan var tekin í dag að nýrri 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli sem gæti þjónað millilandaflugi. Verklok eru áætluð í lok árs 2022.
Heildarkostnaður við nýja millilandaflugstöð er metinn á 1,1 milljarð króna og áætlað er að framkvæmdin skapi 50 ársverk.
Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaðir og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Þegar framkvæmdum við hana lýkur verður ráðist í endurbætur á eldri hluta hússins. Heildarstærð flugstöðvarinnar verður þá 2.700 fermetrar.
Miðað er við að flugstöðin muni geta afgreitt allt að 220 sæta millilandavél á innan við klukkutíma samlhiða 70 sæta innanlandsvél. Isavia sér um framkvæmdina.
Sigurður Ingi Jóhannsson hélt ræðu við tilefnið og sagði það skipta miklu máli að skapa ný tækifæri í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi nú þegar áhrif kórónufaraldursins fara dvínandi.
Sigurður Ingi og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra undirrituðu viljayfirlýsingu árið 2019 um að lagt yrði mat á þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli.
Þá var skipaður vinnuhópur sem skilaði niðurstöðum í mars á síðasta ári. Niðurstöður hans sýndu að núverandi flugstöð væri of lítil og aðstaðan ófullnægjandi til framtíðar. Þá var ákveðið að ráðast í hönnun þúsund fermetra millilandaflugstöðvar.
Þá hefur fjármagn verið tryggt fyrir nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli sem áætlað er að muni kosta 1,6 milljarða króna.
Akureyrarflugvöllur var fyrst reistur árið 1954 líkt og Sigurður Ingi rifjaði upp í ræðu sinni. Síðan þá hafa miklar umbætur verið gerðar og hann meðal annars lengdur og breikkaður.