Alma Möller landlæknir segir það mögulegt að fólk hafi verið orðið værukært á þeim punkti faraldursins þegar hópsýkingin kom upp á Landakoti. Í Kastljósi í kvöld beindi hún sjónum sínum einnig að hólfaskiptingu spítalans og velti því upp hvort hún kunni að hafa veitt falskt öryggi. Alma ræddi um niðurstöður skýrslu Embættis landlæknis um hópsýkingu á Landakoti í fyrra.
„Það var hólfaskipting á Landakoti en hún var ekki nægjanlega góð. Það er ljóst að starfsmenn deildu herbergjum sem voru úr sitthvoru hólfinu. Fólk fór á milli deilda og tæki fylgdu með þeim. Hólfaskiptingin var ófullkomin og kannski skapaði það falskt öryggi,“ sagði Alma í þætti kvöldins.
Hún telur fólk hafa mögulega haldið að aðstæður á spítalanum væru betur fallnar til hólfaskiptingar. Þó kunni ákveðin værukærni hafa verið farin að láta kræla á sér á þessum tímapunkti í faraldrinum.
Annar þeirra þátta sem skýrsla Landlæknis gerir athugasemdir við var fræðsla starfsmanna ásamt eftirliti og eftirfylgni með þeirri fræðslu.
„Ég held að stjórnendur hafi sinnt öllum þessum þáttum, en það hefði þurft að gera enn betur. Ég tel mikið sóknarfæri í eftirfylgni innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Það eru gefnar út verklagsreglur og námskeið eru í boði fyrir heilbrigðisstarfsfólk en það vanti að þau séu sótt og að þeim fylgt eftir.“
Í skýrslunni kemur fram að einungis fjórðungur starfsmanna hafi sótt námskeið í sýkingavörnum. Þær leiðbeiningar sem buðust starfsmönnum voru allar á íslensku og því þurftu sumir starfsmenn að nota þýðingabúnað til að skilja reglurnar.
Þá voru einnig gerðar athugasemdir við að einungis hafi verið skimað á þeim tveimur deildum þar sem sýkingin hafði greinst en ekki á öðrum nærliggjandi deildunum fyrr en nokkrum dögum síðar. Þar telur Alma að treyst hafi trúin á hólfaskiptinguna verið of mikil.
Alma segir það vitað að þrengsl væru á Landakoti og að ekki væri loftræsting. Hún segir mögulegt að fólk hafi ekki verið jafn meðvitað um mikilvægi góðrar loftræstingar í baráttunni við faraldurinn á þessum tímapunkti.
Alma ítrekar mikilvægi skýrra verklagsreglna og viðbragðsáætlana. Sérstaklega hvað varðar faraldra sem séu mesta mesta ógn sem steðji að spítölum.
„Auðvitað þurftu margir frá að hverfa í sóttkví, þá kom mjög margt starfsfólk frá öðrum deildum og úr bakvarðarsveit sem ekki þekktu staðhætti og annað slíkt. Því vantaði upp á að menn vissu nákvæmlega að hverju þeir gengu og hvernig ætti að ganga til vega. Þetta birtist í lýsingum lækna sem var rætt við.
Í viðbragðsáætlun landspítala segir að farsóttir teljist hlutfallslega mesta ógnin sem steðji að bæði spítalanum og sjúklingum. Rannsakendum þótti viðbragðsáætlunin hefði mátt vera betur úr garði gerð. Það er liður í því að gera viðbragðsáætlun að gera ráð fyrir hinu versta eins og að helmingur eða 75% þurfi frá að hverfa,“ sagði Alma í kvöld.
Spurð um muninn á skýrslu landlækns annars vegar og Landspítala hins vegar segir Alma það liggja ljóst fyrir að Landspítali leggi meiri áherslu á húsnæði en Embætti landlæknis bendi fremur á stjórnendur, þjálfun og hólfaskiptingu. Alma segir þar greinilega túlkað með tvennum hætti þó margar skýringar sé að finna í báðum skýrslum. Hún segist þó sátt við skýrsluna.
„Það er ekki í okkar verkahring að finna ábyrgðaraðila eða dæma atburðinn. Almennt er talið að það sé ekki öryggismenningu til góðs að finna blóraböggla. Alvarlegir atburðir í heilbrigpisþjónustu er langoftasat þannig að þeir eiga sér mjög flóknar skýringar. Svona atburðir verða ekki nema það bresti á mörgum stöðum í einu.“
Alma segir það mikilvægast að læra af atburðum sem þessum. Hún hefur sett fram ábendingar til Landspítala sem mætti bæta úr. Hún væntir þess að Landspítalinn horfi á skýrsluna og þær ábendingar sem þar komi fram.