Formaður Skotveiðifélags Íslands, eða SKOTVÍS segir að rekja megi aukna andstöðu við skotveiðar aftur til teiknimyndarinnar um Bamba sem Walt Disney gerði í kringum stríðsárin. „Allir sem hafa séð þessa frægu teiknimynd vita að þar er ekki dregin upp falleg mynd af veiðimönnum,“ segir Áki Ármann Jónsson í Dagmálsþætti dagsins þar sem Eggert Skúlason ræðir við hann.
Þættirnir eru aðgengilegir áskrifendum Morgunblaðsins hér en einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.
Áki segir að þarna hafi hafist mótmæli gegn skotveiðum og þetta hafi leitt til þess í Bandaríkjunum að nánast var hætt að veiða dádýr.
Hin hliðin á þessum peningi er að dádýr urðu og eru vandamál í Bandaríkjunum eftir þetta. Veiðar nánast lögðust af og með fjölgun dýranna fjölgaði banaslysum, þar sem keyrt er á þau. Dádýr í Bandaríkjunum koma við sögu í 2.500 til 3.000 banaslysum á ári þar í landi.