Háskóli Íslands efnir til hátíðarsamkomu í Hátíðarsal aðalbyggingar skólans í dag, en 110 ár eru í dag liðin frá stofnun skólans. Viðburðurinn hefst klukkan níu og er hægt að fylgjast með honum í beinni útsendingu á mbl.is.
Á hátíðarsamkomunni verður undirrituð viljayfirlýsing milli Háskóla Íslands og ríkisstjórnar Íslands um að setja á fót sýningu helgaða forsetatíð og störfum Vigdísar Finnbogadóttur í Loftskeytastöðinni á Melunum. Á athöfninni mun Vigdís jafnframt afhenda Háskóla Íslands muni frá forsetatíð sinni sem verða m.a. grundvöllur sýningarinnar.
Ávörp á hátíðarsamkomunni flytja Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, auk Vigdísar Finnbogadóttur. Enn fremur flytur Háskólakórinn undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar nokkur lög.