Ingvar Þóroddsson, oddadómari í úrslitakeppni MORFÍS í ár, tilkynnti fyrir slysni rangan sigurvegara í keppni á milli Flensborgarskóla og Verzlunarskólans í gær. Eftir að Flensborgarskóli hafði verið kynntur sem sigurvegari keppninnar kom í ljós að Verzlunarskólinn var réttmætur sigurvegari. Ingvar segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða og biður hann hlutaðeigandi innilegrar afsökunar.
Að sögn Ingvars áttaði hann sig á mistökunum þegar hann leit yfir salinn og sá svipinn á meðdómurum sínum, sem höfðu fram að því reynt að fanga athygli Ingvars með því að veifa til hans. Þegar þeir loksins náðu athygli hans var það orðið of seint. Búið var að tilkynna Flensborgarskóla sem sigurvegara keppninnar.
„Þá fattaði ég að þetta ætti að vera öfugt,“ segir Ingvar.
Ingvar var þó fljótur að leiðrétta misskilningin Verzlunarskólanum til mikillar ánægju en liðs- og stuðningsmönnum Flensborgarskóla til mæðu.
„Verzlingar voru mjög ánægðir og liðsmenn og stuðningsmenn Flensborgar voru náttúrlega bara í uppnámi, sem ég skil ótrúlega vel. Það myndaðist svolítið kaotísk stemning að því leytinu til að fáir áttuðu sig á því hvað það var sem hafði gerst. Það eina sem fólk heyrði var að Flensborgarskóli hefði unnið og svo allt í einu að Verzlunarskólinn hefði unnið,“ segir hann.
Þegar blaðamaður innti eftir því hvernig þetta gat skeð segir Ingvar stigafjöldann sem skólarnir hlutu hafa verið óvenju jafnan. Þetta hafi ruglað sig í ríminu þegar hann fór upp í pontu í lok keppninnar til að tilkynna sigurvegarann.
„Ef ég fæ að rekja atburðarásina þá gerist það stundum að annað liðið fær fleiri stig. Í þessu tilfelli var það Flensborgarskóli. Hins vegar voru þrír dómarar sem dæma Verzlunarskólanum sigur og einn af þessum þremur dómurum dæmir Verzlunarskólanum meira að segja eins stigs sigur. Fyrir þeim sem þekkja eitthvað til MORFÍS var þetta alveg fáránlega jafnt. Í rauninni alveg asnalega jafnt. Við dómararnir vorum sjálfir í smá sjokki yfir því hvað þetta var jafnt. Það var raunar bara eitt stig sem réð þessum úrslitum. Annað liðið vann á stigum en hitt vann samkvæmt dómnefnd og það er það síðara sem ræður úrslitunum. Ég skrifaði svo úrslitin á blað en skrifaði ekki nöfn skólanna, því ég vildi ekki að þau myndu óvart sjá úrslitin. Svo fer ég bara upp í pontu og segi vitlausann skóla!“
Ingvar er að eigin sögn miður sín yfir mistökunum og segist skilja vel að þau hafi valdið usla.
„Ég þekki það sjálfur hve mikil vinna fer í undirbúning fyrir þessa keppni og það þarf að bera virðingu fyrir því. Þetta er náttúrlega bara fólki hjartans mál sem tekur tekur þátt í keppninni. Mér finnst ótrúlega leiðinlegt að hafa valdið því að liðs- og stuðningsmenn Flensborgarskóla þurftu að upplifa þetta. Ég reyndi eins og ég gat að biðjast afsökunar þarna á staðnum en eðlilega var fólk í uppnámi.“
Aðspurður hvort farið verði í að endurskoða stigagjöf í keppninni í ljósi uppákomu gærdagsins segist Ingvar ekki vera viss.
„Það hefur verið endurskoðað oft. Ég hef í rauninni ekki svarið við því hvernig er best að útfæra það. En svona voru úrslitin að þessu sinni. Ég gerði þessi mistök og bið hlutaðeigandi innilegrar afsökunar á því,“ segir Ingvar að lokum.