Skömmu eftir klukkan 20 í gær var tilkynnt um konu sem var föst í fatasöfnunargámi.
Konan var farin þegar lögregla kom á vettvang, en hún hafði náð að komast sjálf úr gámnum og hjólað í burtu.
Talsvert var um rafskútuslys í gærkvöldi samkvæmt dagbók lögreglu.
Klukkan 22:29 var tilkynnt rafskútuslys, en ung kona hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli og sagði hún að hjólið hefði brotnað eða gefið sig er hún var á fullri ferð. Fann hún fyrir verkjum í hnjám og var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðadeild.
Klukkan 23:30 datt ungur maður af rafmagnshlaupahjóli og virtist hann hafa fengið höfuðhögg. Samkvæmt lögreglu gekk honum illa að standa upp og var hann fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild.
Skömmu eftir klukkan tvö var tilkynnt um tvö rafskútuslys til viðbótar. Stúlka hafði dottið fram fyrir sig og slasast á höku og munni og fór hún með móður sinni á bráðadeild. Í hinu slysinu hafði maður dottið og var með áverka á hné og kinn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild.
Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt var síðan tilkynnt umferðaróhapp í Hafnarfirði, en bifreið hafði verið ekið á vegg. Ökumaður og farþegi bifreiðarinnar voru fæddar árið 2008, 13 ára á árinu, og var málið afgreitt með forráðamönnum og tilkynningu til Barnaverndar.
Klukkan 18 í gærkvöldi var tilkynnt um mann sem ruddist inn á heimili í Kópavogi og tók þar hund sem hann taldi sig eiga en að sögn húsráðanda var það ekki rétt. Börn voru á heimilinu og urðu þau hrædd við manninn. Maðurinn er grunaður um húsbrot, þjófnað og líkamsárás.
Þá var skömmu fyrir klukkan 21 tilkynnt umferðaróhapp í Grafarvogi. Tveir drengir á vespu höfðu ekið í hlið bifreiðar og kastast af vespunni. Þeir voru ekki sagðir hafa verið með hjálm og slösuðust minniháttar. Foreldrar drengjanna voru á vettvangi og afþökkuðu aðstoð sjúkraliðs.