„Það eiga allir ljúfar minningar héðan“

Agla Egilsdóttir með hnallþóru í Hressingarskálanum.
Agla Egilsdóttir með hnallþóru í Hressingarskálanum. mbl.is/Árni Sæberg

„Viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Þær hafa verið yndislegar,“ segir Agla Egilsdóttir, rekstrarstjóri á Hressingarskálanum sem opnaður var á dögunum eftir langt hlé.

Þó nokkur tíðindi felast í því að Hressingarskálinn hafi verið endurvakinn í sinni gömlu mynd. Hann er elsta veitingahús borgarinnar og var um langt árabil vinsæll samkomustaður þekktra listamanna í bland við almenna borgara. Veitingarnar voru rómaðar og stemningin þótti einstök. Þegar leið á síðustu öld fóru vinsældirnar minnkandi, væntanlega vegna harðari samkeppni eftir að sífellt fleiri kaffihús skutu upp kollinum. Hressingarskálinn varð að skemmtistað og mátti muna fífil sinn fegri.

Gestirnir rifja upp ljúfar minningar

Nú hefur gamla, góða stemningin verið endurvakin og segir Agla að mikill áhugi virðist vera hjá fólki að upplifa hana. „Við ákváðum að endurvekja staðinn með gömlu gildunum. Hér er gamla, góða tónlistin og Hressó-kakan sem margir muna eftir. Nú er Hressó lítill og huggulegur staður þar sem seldur er heimilismatur fyrir alla, líka börnin því það er ekki sérstakur barnamatseðill, þau borða bara það sama og fullorðnir. Svo erum við líka með nýbakaðar kleinur og pönnukökur. Þú getur ekki labbað inn á hvaða stað sem er í Reykjavík og fengið þessar veitingar og þessa notalegu tilfinningu.“

Agla segir að margir gestanna sem komið hafa í vikunni rifji upp sögur frá því þeir sóttu Hressingarskálann á árum áður. „Það eiga allir ljúfar minningar héðan. Núna sitja hjá mér gestir og einn þeirra var að segja mér frá því þegar amma hans fór með hann hingað þegar hann var barn. Þetta er ótrúlega gaman að heyra.“

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til við að endurskapa gömlu stemninguna sem einkenndi Hressó. Agla tekur vel á móti gestum og þeir vita að hverju þeir ganga. Hér er ekkert kúskús eða kimchi; hér er gamla góða Reykjavík. „Það er góður andi í húsinu. Það koma allir brosandi hingað inn. Það er mikil hjartahlýja sem fylgir gestunum. Sagan er allt í kringum okkur og ekki bara gamla sagan. Líka sagan sem verið er að skrifa núna og sagan sem verður til á morgun,“ segir Agla sem er 32 ára gömul og hefur unnið í veitingabransanum frá því hún var 19 ára gömul. Hún kveðst hlakka til að sjá Hressó verða aftur að hornstein í menningu miðborgarinnar. „Ég hvet alla til að koma í kærleikann hér. Hér fær fólk dísætt kaffi og getur sagt mér sínar sögur af heimsóknum á Hressingarskálann. Fólk ætti líka að taka börnin sín og barnabörnin með og búa til nýjar sögur.“

Eitt elsta hús Reykjavíkur

Hressingarskálinn var opnaður á öðrum degi jóla 1929 og naut frá fyrsta degi mikilla vinsælda. Fyrst um sinn var Hressingarskálinn í húsinu í Pósthússtræti 7 (Reykjavíkurapótek) en reksturinn var fluttur í Austurstræti 20 árið 1932. Húsið er eitt hið elsta í Reykjavík. Í bók Páls Líndal um sögustaði Reykjavíkur, sem út kom 1986, segir að húsið Austurstræti 20 hafi komið tilhöggvið frá Svíþjóð. Það var reist árið 1805 fyrir sýslumann Gullbringu- og Kjósarsýslu. Í marga áratugi þar á eftir bjuggu í húsinu fjölmargir embættismenn landsins og fjölskyldur þeirra. Húsið var friðað árið 1990. Árið 1995 var opnaður McDonald's-staður í húsinu og var hann rekinn til 2003. Staðurinn var opinn til kl. 22 á kvöldin og svo voru seldir hamborgarar út um lúgu á nóttunni. Í kjölfarið voru gerðar nokkrar tilraunir með rekstur skemmtistaða í húsinu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert